Á síðastliðnu sumri fól sjávarútvegsráðherra forstjóra Hafrannsóknastofnunar, Jóhanni Sigurjónssyni, að koma á fót faghóp sérfræðinga og aðila í sjávarútvegi til að fjalla um aðferðir stofnunarinnar við stofnstærðarmælingar – þ.e. togararallið.
Undanfarin ár hefur gagnrýni á togararallið farið vaxandi og þar bent á ýmislegt, s.s. breytingar á ástandi sjávar og útbreiðslu þorsks, svo eitthvað sé nefnt.
Faghópnum er einkum ætlað að:
Greina upphafleg og núverandi markmið togararalls.
Meta áhrif umhverfisbreytinga á útbreiðslu, veiðanleika og þar með niðurstöðu stofnmælinga.
Meta hvort og hvernig auka megi áreiðanleika stofnmælingarinnar.
Gera greiningu á núverandi skipulagi og stöðvaneti – gera tillögur til úrbóta.
Koma með tillögur að framtíðarskipulagi með hliðsjón af breyttum skipakosti og öðrum mælingaleiðöngrum.
Hópurinn er eftirfarandi:
Guðmundur Kristjánsson og Kristján Vilhelmsson frá LÍÚ (til vara Friðrik J. Arngrímsson og Kristján Þórarinsson)
Páll Halldórson og Birgir Sigurjónsson frá FFSÍ (til vara Eiríkur Jónsson og Kristinn Gestsson)
Arthur Bogason frá LS (til vara Örn Pálsson)
Björn Ævarr Steinarsson, Höskuldur Björnsson, Þorsteinn Sigurðsson og Jón Sólmundsson, sem mun leiða starf hópsins.
Dr. Ingibjörg S. Jónsdóttir fiskifræðingur mun starfa fyrir faghópinn, eftir því sem þörf er talin á.
Stefnt er að því að fyrsti fundur verði fyrir miðjan desember, fyrstu tillögur liggi fyrir í febrúar nk. og að lokaúttekt liggi fyrir 1. september 2008.