Fjölmiðlar fjalla um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur

Í dag fjallaði DV og Ríkisútvarpið um dóm Héraðsdóms sem greint var frá hér á síðunni sl. þriðjudag. Umfjöllun RÚV var eftirfarandi:

Skattstjóraúrskurður ómerktur

Skattayfirvöld skorti lagastoð til þess að endurákvarða laun trillukarls á Hólmavík. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ómerkt úrskurð skattstjórans á Vestfjörðum. Trillukarlinn, sem jafnframt er útgerðarmaður og eini skipverji báts síns, gaf upp fyrir skattaárið 2002, um 2,5 miljón króna í tekjur.
Aflaverðmæti útgerðarinnar sama ár var samkvæmt framtali á 14. miljón króna. Skatturinn vildi greinargerð um hvernig launin væru reiknuð og fékk þau svör að það væri í samræmi við vinnuframlag trillukarlsins.

Skatturinn féllst ekki á það og með vísan í reglur ríkisskattstjóra um að laun sjómanna á smábátum skyldu ekki vera lægri en 40% af aflaverðmæti báts, voru framtalsskyldar tekjur trillukarlsins meira en tvöfaldaðar og úrskurðaðar ríflega fimm miljónir króna. Í þessum reglum er sjómönnum skipt í fimm flokka eftir störfum og eru smábátasjómenn, sem ekki áttu aðild að kjarasamningi, í einum þeirra. Til þess flokks taldist trillusjómaðurinn.

Dómarinn í máli þessu kemst að því að 40% reglan, sem áður er nefnd, sé ekki byggð á neinni heimild eða málefnalegri ástæðu. Þá verði heldur ekki séð að löggjafinn hafi ætlast til þess að sjómenn utan kjarasamninga skyldu lúta þeirri reglu, óháð rekstrarafkomu útgerðarinnar. Viðmiðunarregluna skorti lagastoð og hún fari að auki í bága við bága við stjórnarskrá lýðveldisins. Úrskurður skattstjórans vestra var því ógiltur og jafnframt úrskurður yfirskattanefndar, sem hafnað hafði kröfum sjómannsins í málinu.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátasjómanna, segir að á annan tug smábátasjómana hafi leitað til félagsins vegna sambærilegra mála og þessa. Trúlega séu þeir fleiri sem telja að skatturinn hafi farið offari í álagningu. Viðbúið er að ríkið áfrýi dómi héraðsdóms til Hæstaréttar.“