Fyrsti fundur um nýgerðan kjarasamning LS og sjómannasamtakanna var haldinn á Hellissandi í gærkveldi. Það var Snæfell sem reið á vaðið. Fundarsókn var ágæt og miklar umræður um samninginn að lokinni kynningu Arnar Pálssonar á honum.
Í máli fundarmanna kom fram að þeir voru sammála því að gerður væri samningur, en sá sem fyrir þeim lægi fæli í sér of dýrar kvaðir þannig að þeir treystu sér ekki að uppfylla þær.
Einkum var bent á að mismunur á launum háseta og skipstjóra væri of lítill, ábyrgð skipstjórans væri vanmetin. Almennt töldu fundarmenn rétt að gefa hverri útgerð sjálfval um þessa skiptingu. Þannig væri hægt að viðhalda þeirri skiptingu milli áhafnarmeðlima sem hefð væri komin á.
Við þennan lið bættist einnig athugasemd við að ekki lægi fyrir hvernig ætti að bregðast við þegar fleiri en 2 menn væru í áhöfn línubáts þegar beitt væri í landi og sama gilti um vélabát.
Einnig bentu fundarmenn á að með samþykkt þeirra um tryggingu skipverja þar sem bætur tækju mið af skaðabótalögum væri ávísun á 10-föld iðgjöld og mikla óvissu miðað við stöðuna í dag.
Þar var m.a. bent á stöðu smærri útgerða sem engan veginn gætu staðið við ákvæðið.
Í umræðum kom einnig fram að skýrar þyrfti að kveða á um uppboðskostnað og fæðispeninga. Hvaða kostnaðarliðir væru inni í „uppboðskostnaði“ og hvort það væri ekki á hreinu að fæðispeningar væru miðaðir við hvern úthaldsdag.
Í lok fundar voru greidd atkvæði um samninginn. Úrslit urðu þau að hann var felldur með 14 atkvæðum gegn 3.
Mynd tekin á fundinum
fv. Alexander Kristinsson, Bárður Guðmundsson, Jóhann Rúnar Kristinsson og Örvar Marteinsson