Skalli, félag smábátaeigenda á Norðurlandi vestra fundaði í gær, 15. janúar um kjarasamning þann sem LS og samtök sjómanna undirrituðu fyrir skemmstu.
Prýðileg mæting var á fundinn og var hann einn sá fjölmennasti frá stofnun félagsins árið 1985. Fjörugar umræður voru um kjarasamninginn. Athugasemdir fundarmanna voru þó nokkrar – og mjög á sömu nótunum og komu fram á fundi Snæfells sl. sunnudag.
Fundarmenn voru á einu máli um að hafa aðeins heildar skiptaprósentuna í samningnum og þá yrði að gera ráð fyrir því að fjöldi manna í áhöfn gæti verið meiri en gert er ráð fyrir. Sérstaklega var tiltekið hversu lítill munur væri á skipstjóra og öðrum áhafnarmeðlimum sem væri mjög á skjön við það sem tíðkaðist.
Þá fannst mönnum greinar um hlífðarfatnað og fæðispeninga óljósar.
Ekki síst stóð í mönnum tryggingapakkinn í heild sinni, sem vel mætti vera að stórútgerðin gæti lifað við vegna mun fleiri áhafnarmeðlima, en væri einfaldlega of stór biti fyrir minni útgerð.
Samningurinn var felldur með 14 atkvæðum, einn sat hjá.