Á fundi Reykjaness sem haldinn var sl. laugardag var auk kjarasamninga rædd samþykkt félagsins um friðun veiðisvæða. Undanfarin ár hefur félagið skorað á sjávarútvegsráðherra að framlengja lokun svæðis sem afmarkast af línu dregin vestur frá Sandgerði og suður af Grindavík. Til þessa hefur félagið ekki fengið áheyrn vegna þessa ábyrgðafulla málflutnings, heldur fengið hálfgerðar skammir um að þetta sé dæmigerð árás á togara í því augnamiði að hygla trillukörlum.
Þó það sé deginum ljósara að veiðar með línu séu langtum umhverfisvænni en togveiðar hafa trillukarlar á Reykjanesi ákveðið að svara gagnrýninni með því að leggja til að umrætt hólf verði lokað fyrir öllum veiðum frá hrygningarstoppi til 1. júní 2008.
Samþykkt Reykjaness er eftirfarandi:
„Smábátafélagið Reykjanes hefur ítrekað, til fjölda ára, sent bréf og farið á fund með sjávarútvegráðherra um lokun reglugerðarhólfs útaf Sandgerði og suður af Grindavík. Ávallt hefur verið lítið um svör og svo virðist vera að einhver æðri öfl ráði öllu um hvar megi toga. Bréf sem sent er á hverju ári, stílað á sjávarútvegsráðuneytið, er sent beint til umsagnar Útvegsmannafélags Suðurnesja og virðist vera að þeir ráði hvort og hvenær þessu hólfi er lokað. Slík vinnubrögð teljum við félagsmenn í smábátafélagi Reykjaness vera óásættanleg.
Þau litlu viðbrögð sem við höfum fengið frá sjávarútvegsráðuneytinu og Hafró eru að við séum að hygla okkur með því að ýta togurunum út af svæðinu svo við getum veitt þar sjálfir.
Til þess að sýna ráðamönnum og Hafró að okkur er alvara samþykkti félagið tillögu á aðalfundi þess efnis að umræddu hólfi yrði lokað fyrir öllum veiðum frá og með hrygningarstoppi til og með 31. maí 2008.
Með samþykktinni vonum við að sjávarútvegsráðherra og Hafrannsóknastofnunin telji tillögu okkar öllum til framdráttar í því augnamiði að styrkja þorskstofninn við Íslandsstrendur.