Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifar 23 nemendur

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifar í dag 23 nemendur frá 15 löndum. Frá þessu er greint í sameiginlegri fréttatilkynningu skólans og Hafrannsóknastofnunar.

Í tilkynningunni segir að „markmið skólans sé að bjóða sérfræðingum í sjávarútvegi í þróunarlöndum upp á þjálfun og endurmenntun á þeirra sérsviðum.

Þetta er 10. hópurinn sem útskrifast en alls hafa þá 167 nemendur frá um 30 löndum útskrifast. Hópurinn í ár er óvenjulegur að því leiti að í fyrsta sinn útskrifast fleiri konur en karla, 12 alls. Nemendur Sjávarútvegsskólans hófu námið í byrjun september og dreifðust þeir á fjórar sérlínur; 5 stunduðu nám á mati á fiskistofnum, 7 í gæðastjórnum í fiskiðnaði, 6 í fiskveiðistjórnun, og 5 á nýrri línu um sjálfbært fiskeldi, en sú lína er kennd í samstarfi við háskólann á Hólum. Að auki býður Sjávarútvegsskólinn upp á þjálfun á sviðið veiðitækni, og rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Sjávarútvegsskólinn leggur sérstaka áherslu á lönd í Afríku, sunnan Sahara, og smáeyþróunarríkjum einnig kemur stór hluti nemenda frá ýmsum löndum Asiu, Karíbahafs og Kyrrahafseyjum. Á hverju ári bætast ný lönd í hóp þeirra sem senda starfsmenn í Sjávarútvesskólann og í ár eru nemendur í fyrsta sinn frá Bangladesh, Kambódíu, Indlandi, Nárú, Gæjana og Jamaika.

Til viðbótar því 6 mánaða námi sem fram fer á Íslandi skipuleggur Sjávarútvesskólinn og þróar stutt námskeið í samstarfslöndunum í samvinnu við heimamenn og alþjóðlegar stofnanir og einnig býður skólinn upp á skólastyrki fyrir nemendur sem útskrifast úr Sjávarútvegsskólnum til framhaldsnáms á Íslandi. Á síðasta skólaári voru haldin 5 námskeið í samstarfslöndunum og nú stunda 6 fyrrum nemendur framhaldsnám á Íslandi.

Sjávarútvegskólinn er rekinn sem verkefni innan Hafrannsóknastofnunarinnar, í samvinnu við Matís, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Að auki leggja aðrar stofnanir, samtök, fyrirtæki og einstaklingar hönd á plóg.

Skólinn er hluti af þróunarsamvinnu Íslendinga og hefur vaxið mjög ört á undanförnum arum. Hann er fjármagnaður af framlagi Íslands til þróunarmála. Við útskriftana í dag mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra vera viðstödd og ávarpa nemendur og gesti.

Fastir starfsmenn Sjávarútvegsskólans eru 4, og er Dr. Tumi Tómasson forstöðumaður.“