„Hvalveiðar í atvinnuskyni’ – grein eftir Sæmund Þ. Einarsson

Fyrir stuttu birtist í Morgunblaðinu eftirfarandi grein eftir Sæmund Þ. Einarsson smábátasjómann, undir heitinu „Hvalveiðar í atvinnuskyni’:

„Samkvæmt opinberum tölum um veiðar á hvölum að tillögu vísindamanna er lagt til að veiða megi 400 hrefnur og 150 langreyðar á þessu ári.
Árið 2006 var opnað á ný fyrir hvalveiðar í atvinnuskyni eftir 20 ára hvalveiðibann. Hvalur 9 fór af stað til veiða með glæsibrag þá um haustið og veiddi á skömmum tíma 7 langreiða af 9. Veiða mátti 30 hrefnur það árið fyrir utan vísindaveiðar.
Í sumar 2007 lauk vísindaveiðum í þeirri áætlun sem þá var í gangi. Viðamikil talning á hvölum á íslensku hafsvæði fór fram í sumar. Tilfinning talningarmanna er sú að hvalastofnar séu í góðu ástandi eins og fyrri talningar hafa sýnt. Það er 1987, 1988, 1995 og 2001. Samkvæmt talningu árið 2001 voru 0-6-43 hrefnur og 0-0-25 langreyðar á íslenska talningarsvæðinu. Fyrri niðurstöður benda til mikillar fjölgunar hnúfubaks hér við land.

Þessi gögn eru megin undirstaða ráðgjafar um verndun og nýtingu hvalastofna á svæðinu. Samkvæmt opinberum tölum um veiðar á hvölum að tillögu vísindamanna er lagt til að veiða megi 400 hrefnur og 150 langreyðar á þessu ári.
Stefna stjórnvalda er að gefa ekki út leyfi fyrir veiðum á hvölum í atvinnuskyni nema áður hafi verið gengið frá sölu hvalaafurða. Það er skiljanleg afstaða miðað við hvalveiðistopp í langan tíma.
Það er rökrétt hugsun að efla veiðar á vannýttri tegund þegar á sama tíma eru margir stofnar nytjafiska ofveiddir. Þetta er liður í sjálfbærum veiðum þó dýrin séu fá í byrjun er betra að fara af stað, skapa þekkingu og kanna viðbrögð markaðarins, því án reynslunnar verður engin þróun.
Ráðgjöf vísindamanna á veiðum heildarafla hverrar tegundar fyrir sig hefur í gegnum tíðina verið talin af mörgum varfærnisleg, hagsmunaaðilar hafa alltaf veitt meira en lagt er til úr flestum fiskistofnum okkar með þeim afleiðingum að skorið er niður núa með mjög harkalegum hætti. Á sama tíma hamla stjórnvöld veiðum á hval með íþyngjandi skilyrðum fyrir þennan útgerðarflokk þrátt fyrir að lögmál kapítalsins virkar aldrei betur en þegar menn eiga að vinna með sínar fjárfestingar á eigin ábyrgð og lúta lögmálum markaðarins án ríkisstyrkja.
Ráðgjöf vísindamanna er nánast falin fyrir almenningi og skrifræðið í algleymingi til að passa upp á hluti sem óþarft er að gæta því enginn ábyrgur maður leggur út í fjárfestingar eins og veiðar sem útheimta dýran búnað nema til séu markaðir fyrir afurðirnar, að sjálfsögðu.
Í þessu samhengi væri hægt að vinna hvalaafurðir í tómum fiskvinnslustöðvum vítt og breitt um landið til pökkunar og frágangs afurða undir umsjón gæðaeftirlitsmanna og yrði þannig virk mótvægisaðgerð á landsbyggðinni vegna kvótaskerðingar á þorski. Auðvelt væri fyrir eigendur þessara húsa að leigja þau eða selja til þessarar starfsemi.
Í tengslum við aflabrest á loðnu er ekki útilokað að Japanir sæju sér leik á borði að kaupa hrefnukjöt í staðin fyrir loðnuna. SaemundurE12.jpg
Nú ríður á því að hvalaafurðir fái góðar viðtökur á mörkuðum innlendum sem erlendum, munum að dýr í villtri náttúru er hrein náttúruafurð sem svíkur engan. T.d. eru villt dýr tekin úr sínu umhverfi þar sem fæðan er lifandi bráð og nægt olnbogarími því ólíku að jafna þegar um er að ræða verksmiðjuframleiddar afurðir í miklum þrengslum dýranna.
Margfeldisáhrif veiðanna koma fljótt fram fyrir útgerðir, sjómenn, verkendur, dreifingaraðila, smásöluverslanir og ekki síst fyrir allt samfélagið.
Félag hrefnuveiðimanna er til og þar með er komin af stað atvinnuvegur (útgerð) sem á eftir að vaxa og dafna í framtíðinni. Einir og sér mega þeir sín lítils en með stuðningi stjórnvalda og almennings ná þeir mun meiri árangri.
Óvíða í heiminum er aðgengi jafn gott að hreinu náttúrufæði eins og á okkar gjöfula landi. Því ættum við að hafa það hugfast hvað við látum ofan í okkur og líta gagnrýnum augum á uppruna og meðhöndlun matvæla. Hvalaafurðir þurfa að vera sýnilegar í kjötborðum verslana, veitingahúsin hefðu hvalafurðir á matseðli sínum ásamt kynningum matreiðslumanna,. því það sem við gerum vel “heimafyrir” mun vekja athygli erlendis.
Matvælatengd ferðaþjónusta, þar sem góðir matsölustaðir gefi kost á sælkera fæðu unnin með hráefni úr íslenskri náttúru, væri örugglega gott framlag í ferðamálin.
Rökin fyrir skaðsemi hvalveiða á íslenskt efnahagslíf standast ekki því árið 2006 þegar lætin urðu sem mest við lok hvalveiðibannsins og upphaf hvalveiðanna komu aldrei fleiri erlendir ferðamenn til landsins. Upp til hópa er þetta fólk menntað og vel upplýst, vill skoða stórbrotið náttúrufar á Íslandi, kynnast menningu og fólki þessa lands. Það veit fyrirfram að sjávarútvegur er undirstöðuatvinnuvegur landsmanna og kemur því ekkert á óvart að hvalveiðar séu leyfðar hér í atvinnuskyni.
Ég vil óska hrefnuveiðimönnum og stórhvalveiðimönnum velfarnaðar á komandi vertíð.

Sæmundur Þ.Einarsson. (höfundur er smábátasjómaður)