BioPol rannsakar grásleppuna í Húnaflóa og Skagafirði

Hafið er umfangsmikið verkefni undir forystu BioPol ehf Sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd, um rannsóknir á hrognkelsum í Húnaflóa og Skagafirði. Landssamband smábátaeigenda er einn þriggja samstarfsaðila BioPol, en auk þess eru Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar og Háskólinn á Akureyri.

Verkefnið miðar að því að afla frekari þekkingar á líffræði og hegðunarmynstri hrognkelsa ásamt því að reyna að finna leiðir til frekari nýtingar á tegundinni.
Verkefnið hefur hlotið styrk úr Samkeppnisdeild Verkefnasjóðs Sjávarútvegsins og fjárlaganefnd Alþingis.

Við vinnslu verkefnisins er haft náið samstarf við veiðimenn á svæðinu sem hafa sýnt mikilvægi þess mikinn og góðan skilning.
Nokkrir útgerðaraðilar hafa nú þegar verið virkjaðir til beinnrar þátttöku í verkefninu m.a. með þeim hætti að rannsóknafólk framkvæmi mælingar úr afla úti á sjó og fái að taka með sér hrognkelsi til frekari úrvinnslu í landi.

Einn veigamikill verkþáttur verkefnisins eru merkingar á hrognkelsum. Merkingarnar eru hugsaðar til þess að fá upplýsingar um veiðiálag á ákveðnum svæðum og eins að sjá hvort hrognkelsi er svæðisbundin tegund sem leitar á sömu svæði til hrygningar ár eftir ár. Áætlað er að merkja nú í vor um 2000 hrognkelsi í þessum tilgangi.

Merkingar munu verða framkvæmdar í upphafi og lok vertíðar og því er líklegt að stór hluti merktra fiska muni veiðast strax á sömu vertíð. Því er mikilvægt að merktum fiskum sem veiðast á þessari vertíð verði sleppt aftur en sjómenn tilkynni samt sem áður númer merkis, dag- og staðsetningu þar sem viðkomandi fiskur veiddist. Hægt er að gefa þessar upplýsingar í síma 7-79-896 og 7-29-452.

Framkvæmdastjóri BioPol ehf er Halldór G. Ólafsson.