Frétt ársins (hingað til) fyrir þá sem eru ósammála Hafró hlýtur að vera sú sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í dag (og bls. 4). Þar er smáfiskavernd fordæmd og sömuleiðis fiskveiðistjórn sem byggir á magnúthlutun. Það er ekki eins og að Jón Kristjánsson, Kristinn Pétursson, Jónas Bjarnason eða Sveinbjörn Jónsson séu enn og aftur að predika boðskap sinn; Nú eru á ferð vísindamenn við Kaliforníuháskólann í San Diego – með niðurstöður úr viðamiklum rannsóknum, algerlega óháð Alþjóða hafrannsóknarráðinu (ICES) eða framangreindum sérvitringum. Eftir því sem næst verður komist hefur enginn þeirra vísindamanna sem þarna koma við sögu verið stimplaðir „vatnalíffræðingar’, hvað svo sem gerist í kjölfar fréttarinnar.
Haft er eftir George Sugihara, prófessor við Scripps Institution of Oceanography við Kaliforníuháskólann í San Diego að „regluverk sem einungis byggist á magnviðmiðunum sé ófullkomið. Nauðsynlegt sé að taka einnig tillit til aldurs- og stærðarsamsetningar fiskistofna’.
Þeir sem hafa vogað sér að tala með þessum hætti hérlendis hafa hingað til fengið það óþvegið fyrir „ábyrgðarlausan“ málflutning. Það verður því fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Hafró við þessari frétt og þeim vísindaskýrslum sem að baki liggja. Stofnunin sem prófessorinn George Sugihara starfar hjá leggur m.a. til grundvallar gögn til 50 ára um ástand fiskistofna og hafsins í Kaliforníustraumnum í Kyrrahafinu. Til gamans má geta þess að Kyrrahafið er rúmlega helmingi stærra en Atlantshafið, bæði að flatar- og rúmmáli og stærra en allt þurrlendi jarðar. Svæðið sem Hafró rannsakar árlega er því í samanburði lítið stærra en stórt stöðuvatn.
Þessi frétt hlýtur að auki að vera áfall fyrir fjölmörg umhverfisvernunarsamtök, sem hatrammlega hafa barist fyrir því að „smáfiskurinn“ skuli skilyrðislaust verndaður. Það verður ekki síður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum úr þeirri átt.