Birtur hefur verið listi yfir kvótastöðu 100 stærstu útgerðanna. Nokkrar breytingar eru á listanum frá því í fyrra. HB Grandi er eins og þá með langflest þorskígildi og er einnig hæstur í ýsu, ufsa, karfa og loðnu eða helmingi þeirra 8 tegunda sem lúta ákvæðum um hámarkseign. Samherji hf er með hæstu hlutdeild í þorski og Brim í grálúðu. Breyting verður á úthafsrækju, þar er Hraðfrystihúsið Gunnvör með mestu hlutdeild skýst uppfyrir Vísi sem var þar í fyrra og þá er Skinney-Þinganes komið með mestu hlutdeild í síld, en Samherji sem þar var í fyrra fellur niður í þriðja sæti.
Þau þrjú fyrirtæki sem eiga mesta hlutdeild í einstaka tegundum eru:
Þorskígildi: HB Grandi 11,91%, Samherji hf 7,72% og Brim hf 5,38%.
Þorskur: Samherji hf 7,10%, Brim hf 5,53% og Þorbjörn hf 5,16%.
Ýsa: HB Grandi 6,60%, Vísir hf 5,87% og Brim hf 5,61%.
Ufsi: HB Grandi 17,56%, Samherji 6,65% og Þorbjörn hf 6,54%.
Karfi: HB Grandi 31,95%, Samherji 8,21% og Brim hf 7,64%.
Grálúða: Brim hf 19,99%, Samherji 15,32% og HB Grandi 13,17%.
Síld: Skinney-Þinganes hf 18,97%, Síldarvinnslan hf 15,53% og Samherji hf 13,31%.
Loðna: HB Grandi 18,68%, Ísfélag Vestmannaeyja hf 14,82% og Gjögur ehf 13,13%.
Úthafsrækja: Hraðfrystihúsið Gunnvör 15,99%, Vísir hf 15,01%, Rammi hf 12,72% og Samherji 12,67%.
Samkvæmt 13. gr. laga um stjórn fiskveiða má einstakt fyrirtæki ekki eiga meira en 12% af heildarverðmæti (þorskígildi) aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um heildarafla. Í þorski er hámarkið 12%, í ýsu, ufsa, grálúðu, síld, loðnu og úthafsrækju 20% og í karfa er hámarkið 35%.
Tölulegar heimildir: Fiskistofa