Greenpeace herjar á bandarískar smásölukeðjur

Greenpeace hét því fyrir allnokkrum árum að snúa sér að fiskveiðum, eftir að hafa bjargað hvölunum. Mörgum fannst ólíklegt að þeim yrði mikið ágengt. Mun erfiðara væri að „manngera’ fiska með kalt blóð en hin risastóru spendýr og átu/fisk ryksugur hafsins. Það er löngu tímabært að endurskoða þessa afstöðu.

Nú hafa samtökin hrint úr vör baráttu fyrir því að bandarískar smásölukeðjur lúti þeirra vilja varðandi innkaup á fiski. Haldið er uppi viðteknum vinnubrögðum – þ.e. að „rauðmála’ þann fisk sem samtökunum er ekki þóknanlegur.

Til marks um hversu langt er gengið þá fékk bandaríska Whole Foods Market smásölukeðjan hrikalega falleinkunn hjá hinum alvirtu Greenpeace samtökum.

Þetta er þróunin sem LS hefur varað við og gengið til nokkurra ára eftir við stjórnvöld að þau gerðu aðgerðaáætlun gegn. Svokölluð umhverfissamtök eins og Greenpeace telja sig langt um fróðari og meðvitaðri um ástand fiskistofna og lífríki hafsins en nokkrir aðrir.

Vandinn er sá að ef fátt er um andsvör komast slík samtök upp með sinn málflutning, hvort sem hann er réttur eða rangur.