Alvarlegt ástand í sjávarútvegi – aukum þorskkvótann í 220 þúsund tonn

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum í dag 3. júlí:

Um þetta leyti í fyrra var látið að því liggja að sjávarútvegurinn gæti tekið á sig þriðjungs skerðingu þorskkvóta vegna þess hve vel áraði í þjóðfélaginu. Stöðugleiki, gengisvísitalan í 113, evran í 84, pundið í 124 og dollarinn í 62, yenið 0,50 og frankinn í 51 krónu. Að vísu taldi sjávarútvegurinn sig eiga inni smá gengissig. Talað var um gengisvísitölu á bilinu 120 til 125.

Þekking fiskimanna einskis metin

Gríðarlega sterk rök voru sett fram gegn tillögum Hafrannsóknastofnunar. Himinn og haf var á milli þess sem dagbækur, þekking og reynsla sjómanna sagði til um ástand þorskstofnsins og þess sem vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar héldu fram. Allt þetta og meira til var kynnt fyrir stjórnvöldum. Það dugði hins vegar ekki til, stjórnvöld ákváðu að fara í einu og öllu eftir tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar um 130 þús. tonna heildaraflamark í þorski. Veiðiheimildir í þorski minnkaður um þriðjung, heil 63 þús. tonn.
Útgerðin brást við með margvíslegum hætti. Meðal aðgerða var að veiðiheimildir voru sameinaðar og skipum lagt og óveiddur kvóti fluttur á yfirstandandi fiskveiðiár. Með því móti hækkaði heildaraflamark ársins um 0-2-11 tonn, tæp 9%. Það munaði um allt og alls staðar var reynt að skera niður kostnað. Menn vissu sem var að það yrði að þrauka.

Hækkun sjómannaafsláttar hafnað

Stjórnvöld boðuðu mótvægisaðgerðir vegna gríðarlegrar tekjuskerðingar hjá sveitarfélögum, afléttu veiðigjaldi í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári og því næsta og lækkaðu það í öðrum tegundum. Mörgum fannst ekki nóg aðgert og gagnrýndu að aðgerðirnar næðu ekki til þeirra sem fyrir mestu skerðingunni yrðu – sjómannanna. Landssamband smábátaeigenda var í þeim hópi og skoraði á ríkisstjórnina að stórhækka sjómannaafsláttinn, sem mundi skila sér beint í vasa sjómanna. Ekki var meirihluti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis fyrir breytingu á sjómannaafslætti og engar skýringar gefnar á því hvers vegna erindinu var synjað.
Nú liggur á borði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um heildarafla á næsta fiskveiðiári. Stofnunin ráðleggur ráðherra að skera enn meir niður í þorski, fara í 124 þús. tonn. Ráðherra hefur hins vegar sagt að ekki verði farið niður fyrir 130 þús. tonn.

Gjörbreytt efnahagsástand

Landssamband smábátaeigenda hefur ítrekað hvatningu sína til ráðherra um að úthluta jafnstöðuafla upp á 220 þús. tonn næstu þrjú árin. Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hver ákvörðun ráðherra verður þótt margt bendi til að 130 þús. tonn verði niðurstaðan. Gangi það eftir verða stjórnvöld að vera tilbúin til að bregðast við þeirri stöðu sem upp kemur. Efnahagsástandinu nú er ekki hægt að líkja við það sem ríkti á sama tíma í fyrra.
Verðbólgan er komin á skrið, gengisvísitalan er nú 161 stig eða 42% hærri en hún var á sama tíma í fyrra. Þá er evran 50% hærri en hún var fyrir ári, franki 54% hærri, yen 50% hærra, dollari 29% hærri og breskt pund 28% hærra.
Í raun þarf engu hér við að bæta, aflaminnkun um 126 þús. tonn í þorski á tveimur árum, gríðarleg hækkun alls kostnaðar þar sem olían er í aðalhlutverki, lán og afborganir af þeim hafa hækkað um tugi prósenta og bankar lána ekki peninga nema á kjörum sem kölluð voru okurlán hér áður fyrr.

Ennþá undirstöðuatvinnugreinin

Stjórnvöld standa því frammi fyrir þeirri staðreynd að vilji þau hafa hér áfram sterkan og öflugan sjávarútveg verða þau að treysta því að útgerðar- og sjómenn hafi rétt fyrir sér varðandi ástand þorskstofnsins og auka kvótann frá því sem nú er um helming.
Að lokum skal minnt á að sjávarútvegurinn er enn undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.

———

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.