Sjó- og útgerðarmenn fjölmenna til Lögþings

Í gær og í dag er margt um manninn í þingstofu Lögþings Færeyja. Þangað eru komnir útgerðar- og sjómenn allra fiskiskipa í Færeyjum nema stærstu togaranna. Tilefnið er frumvarp sjávarútvegsráðherra sem felur í sér helmings fækkun veiðidaga.

Að sögn Auðuns Konráðssonar formanns Meginfelags Útróðrarmanna var það ætlun Torbjörns Jacobsens að leggja frumvarpið fram í gær til fyrstu umræðu. Af því varð ekki og hefur nærvera sjávarútvegsins haft þar áhrif á, auk þess sem fyrirsjáanlegt er að núverandi stjórnarmeirihluti heldur ekki í þessu máli.

Í morgun var frumvarpið loksins lagt fram og vísað til atvinnumálanefndar. Enginn stjórnarþingmaður tjáði sig um efni frumvarpsins, þeir ræddu lögin um stjórn fiskveiða, aftur á móti snéri stjórnarandstaðan sér til áheyrenda og fagnaði nærveru þeirra og lýsti andstöðu við frumvarp ráðherrans.
Að sögn Auðuns var fjölmenni á þingpöllum að fylgjast með umræðunni.

Stöðugir fundir eru nú í bakherbergjum í því skyni að tryggja meirihluta við frumvarpið, þar sem tveir af stjórnarþingmönnum hafa nú þegar lýst því yfir að þeir styðji ekki frumvarp sjávarútvegsráðherra.

Ljóst er að sjávarútvegsráðherra er vandi á höndum því líf stjórnarinnar hangir á bláþræði og gríðarleg óánægja er með ætlun hans að skerða veiðidaga um helming.

Mótmæli eru þegar hafin með því að eigendur línuskipa, smábáta og minni togara hafa bundið skip sín og stefnt áhöfnum sínum til þings.

Sjómannadagurinn 2006″