Í Fiskifréttum 7. ágúst sl. birtist grein eftir Örn Pálsson þar sem hann fjallar um stækkun á veiðistofni þorsks langt umfram spár þar um. Greinin er eftirfarandi:
„Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var 10. júlí síðastliðinn lýstu stjórnarmenn áhyggjum sínum á afleiðingum ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að leyfa aðeins 130 þús. tonna þorskafla á næsta fiskveiðiári, þ.e. sami afli og nú er.
Stjórnin var einu máli um að ástandið í sjónum gæfi ekki tilefni til svo litillar þorskveiði. Þá var sú umræða sterk að bera saman slök aflaár 1993 og 1994, þegar varla fékkst meira en 100kg á bjóðið, en kvótinn var þá 155 þús. tonn.
Samanburður frá 1994 og 1995
Þessi samanburður var mér tilefni þessarar greinar. Ath. að allt sem er innan sviga í tilvitnunum er höfundar.
Ég fletti upp í ritum Hafrannsóknastofnunar um aflahorfur 5-19-1994 og 6-19-1995 og leit yfir grein „Úr Verinu“ í Morgunblaðinu 12. apríl 1996. Einnig skoðaði ég hvað sjómenn höfðu að segja á þessum tíma og studdist þá við viðtöl úr Fiskifréttum.
„Síðan 1985 eða í samfellt 9 ár hafa árgangar þorsks verið lélegir og allir undir meðallagi. Á næstu árum mun þróun þoskstofninn því mótast af þessari lélegu nýliðun.“
og síðar
„Ef veidd verða 190 þús. tonn árið 1995 og 1996 mun veiðistofn, sem nú er í sögulegu lágmarki, (1994 – 590 þús. tonn áætlaður) standa nánast í stað“. „Við 160 þús. tonna ársafla mun veiðistofn vaxa i 650 þús. tonn árið 1997“. „Aðeins með því að takmarka aflann enn frekar má gera ráð fyrir að stofninn nái að stækka svo nokkru nemi fram til ársins 1997. Við 130 þús. tonna afla eru líkur á að veiðistofninn verði kominn í 770 þús. tonn árið 1997“.
og síðar
„Ljóst er að áframhald þorskveiða með svipuðum afla og á yfirstandandi fiskveiðiári (sjá töflu)
muni auka líkur á viðvarandi slakri nýliðun í stofninn.“, eins og segir í ágripi úr skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar „Nytjastofnar sjávar 4-19-1993 – aflahorfur á fiskveiðiárinu 5-19-1994“
Horfur breytast á einu ári
Á vertíðinni 1994 máttu menn þakka fyrir að ná 100 kílóum á bjóð, þorskurinn gaf sig illa á línuna.
Í skýrslu stofnunarinnar ári síðar, maí 1995, var svipað uppi á teningunum. Veiðistofn 1995 var áætlaður 560 þús. tonn, ljóstýra var í nýliðuninni því 1993 árgangurinn var nú metinn meðalárgangur og stofnunin samþykkti 25% aflareglu sem gaf aflaráðgjöf upp á 155 þús tonn samkvæmt ákvörðun stjórnvalda um gólf í aflareglu.
Ekki var samhljómur hjá fiskifræðingum Hafró og sjömönnum það árið varðandi ástand þorskstofnsins. Í Fiskifréttum 26. maí 1995 var haft eftir Þorvaldi Garðarssyni á Sæunni Sæmundsdóttur ÁR og stjórnarmanni í LS – „Þorvaldur segir það hafa komið mörgum sjómönnum á óvart hve þorskurinn hafi verið blandaður á vertíðinni. Við höfum verið að veiða alla hugsanlega árganga og mér virðast þessir yngri þorskárgangar, sem fiskifræðingarnir sögðu mjög lélega, hafa komið sterkir inn í veiðina.“ og síðar í viðtalinu segir Þorvaldur: „Þorvaldur segir enga spurningu um að að á 21 árs sjómennskuferli þá sé vertíðin nú sú gjöfulasta sem hann hefur upplifað. Ég hef skráð allt, sem viðkemur veiðunum, í dagbækur öll þessi ár og þegar ég fletti í gegnum bækurnar þá kom í ljós að aflinn nú á vertíðinnni er sá mesti sem ég hef fengið á hvert bjóð. Það var mjög algengt að fá um 200 kíló af þorski á hvert bjóð nú á meða hrotan stóð og meðaltalið á vertíðinni liggur einhvers staðar á milli 150 og 200 kíló á bjóð.“ sagði Þorvaldur.
Þetta er rifjað hér upp til að vekja athygli á hversu fá ár eru liðin frá því fiskifræðingar sögðu ástandið vera eins og í dag. Nýliðun léleg og þróun þorskstofnsins á næstu árum mótast af henni.
Veiði umfram ráðgjöf hamlaði ekki uppbyggingu
Samfleytt í þrjú fiskveiðiár fór aflinn rúmum fjórðungi umfram ráðgjöf og aflaregla sagði til um. Þrátt fyrir það var veiðistofn orðinn 889 þús. tonn 1997 og var í raun metinn milljón tonn 1999, en er nú talinn hafa verið 783 þús. tonn.
Á fiskveiðiárinu 9-19-1998 varð útkoma úr aflareglu 250 þús. tonn, sem var tæpum 100% meira en ráðlögð veiði var fjórum árum áður.
Það er von mín að nú muni þetta endurtaka sig og nýliðun árganganna 1996 til og með 2003 sem var mjög sambærileg og 1985 – 1992 skili viðlíka ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun og gerðist fyrir fiskveiðiárið 9-19-1998.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.“