Fyrr í dag hélt Árborg, félag smábátaeigenda á Suðurlandi, aðalfund sinn í Rauða Húsinu á Eyrarbakka.
Á fundinum var samþykkt að senda eftirtaldar tillögur til aðalfundar Landssambands smábátaeigenda sem haldinn verður í Turninum í Kópavogi 23.og 24. október nk.
1. Árborg hvetur aðalfund LS til að beita sér af alefli fyrir því að lög um línuívilnun verði lagfærð. Aðalfundur Árborgar krefst þess að allir dagróðrabátar sem róa með línu njóti línuívilnunar án tillits til þess hvernig línan er beitt.
Á síðasta fiskveiðiári brunnu inni milli 0-6-1 og 0-7-1 tonn af þorski sem ætluð voru til línuívilnunar á sama tíma og línubátum er meinað um ívilnun eingöngu á þeim forsendum að þeir beita línuna ekki með þeirri einu aðferð sem yfirvöldum er þóknanleg.
2. Aðalfundur Árborgar mótmælir harðlega niðurstöðum Hafró varðandi stærð þorskstofnsins og hvetur sjávarútvegsráðherra til að auka nú þegar verulega við þorskvótann.
3. Aðalfundur Árborgar mótmælir harðlega þeirri furðulegu aðgerð að opna fyrir snurvoð upp í fjöruborð svæðið frá Þorlákshöfn og alveg austur fyrir Vestmannaeyjar.
Þetta er óskiljanleg framkvæmd þar sem reynsla er fyrir því að slíkar veiðar fara mjög illa með ýsustofninn á þessu svæði og mörg ár eða áratugi tekur að byggja upp ýsugengd á svæðinu eftir notkun snurvoðar.
Árborg krefst þess að umrædd reglugerðarbreyting verði þegar í stað dregin til baka.
4. Aðalfundur Árborgar fer fram á endurskoðun á reglum varðandi atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Það eru hrein mannréttindabrot að menn skuli í raun missa réttindin hafi þeir ekki á sjó komið á 5 ára tímabili.
5. Aðalfundur Árborgar fer fram á að prósentuhlutfall á línuívilnun í þorski verði hækkað, þar sem ekki hefur náðst að veiða allan þann þorsk sem úthlutað hefur verið í línuívilnuninni og hann brunnið inni.
6. Aðalfundur Árborgar samþykkir að óska eftir að úthlutunarreglum á byggðakvóta verði breytt, þ.a. að hann miðist við löndunarhöfn.
Í stjórn Árborgar eru:
Þorvaldur Garðarsson formaður og fulltrúi Árborgar í stjórn LS
Haukur Jónsson varaformaður Eyrarbakka
Ólafur Ingi Sigurmundsson meðstjórnandi Selfossi
Ragnar Jónsson ritari Selfossi
Stefán Hauksson gjaldkeri Þorlákshöfn