Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðar sl. fimmtudag var samþykkt að taka undir með Fjórðungssambandi Vestfirðinga að breyta reglugerð um línuívilnun á þann hátt að hún nýttist að fullu.
Undanfarin ár hefur þorskur sem ætlaður er til línuívilnunar ekki nýst að fullu. LS hefur ályktað um málefnið og hvatt ráðherra til breytinga.
Samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðar er eftirfarandi:
„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur undir samþykkt Fjórðungsþings Vestfirðinga 2008 og skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að breyta ákvæðum reglugerðar 8-20-741 þannig að kvóti sá sem ætlaður er til línuívilnunar nýtist að fullu. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að niðurskurður aflaheimilda í þorski mun koma að fullum þunga fram á nýbyrjuðu fiskveiðiári, auk þess sem aðstæður í sjávarbyggðum og efnahagslífi landsmanna gera það óverjanlegt að aflamark sem tekið hefur verið frá til línuívilnunar liggi óveitt í sjó og engum til gagns.“