Hrollaugur vill hvorki línuívilnun né byggðakvóta


 

Aðalfundur Hrollaugs var að venju
haldinn 27. september. 
Hornfirðingar fjölmenntu til fundar og ræddu sín mál af miklu
sjálfstæði. 

 

Það var þó engin undantekning frá
samþykktum annarra svæðisfélaga varðandi þorskkvóta yfirstandandi árs.  Einróma samþykkt að skora á ráðherra að
auka hann nú þegar.

0-99-100.jpg

Línuívilnun er gegn vilja
Hrollaugsmanna.  Þeir óska eftir að
hún verði aflögð með öllu og þeim veiðiheimildum sem í hana hafa verið settar,
verði skilað.

Eins er það með byggðakvóta, hornfirskir
smábátaeigendur vilja leggja hann af og benda á að á undanförnum árum hafi menn
fjárfest í veiðiheimildum.  Á sama
tíma og verið sé að greiða af lánum sé öðrum útgerðum réttar veiðiheimildir án
endurgjalds og sé slík mismunun með öllu óviðunandi.

 

Flotvörpuveiðar krefjast
Hrollaugsmenn að verði bannaðar. 
Þeir benda á að rannsóknir sem gerðar hafa verið sýni að aðeins lítill
hluti þess sem fer inn um trollopið endi sem afli um borð í skipi.

9-99-100.jpg

 

Á aðalfundinum var einnig rætt um
skötusel og keilu.  Samþykkt var að
óska eftir að skötuselur verði utan kvóta sem meðafli við krókaveiðar allt í
kringum landið að Vestfjörðum undanskildum. 

Þá skorar smábátafélagið Hrollaugur
á sjávarútvegsráðuneytið að opna svokallað Keiluhólf sem er suðaustur úr
Hrollaugseyjum.  Þar er bent á að
ástæða lokunar svæðis suðaustur úr Hrollaugseyjum hefði verið að halda
kvótalausum skipum frá tilteknu svæði. 
Þau skip höfðu verið skráð á Íslandi gagngert til að veiða keilu á línu
enda hún ekki í kvóta á þeim tíma.  Vegna fjölgunar smærri línubáta á Hornafirði er nú farið fram
á að svæðið verið opnað, enda þetta svæði þekkt fyrir allt annað en smáan fisk.
 Hluti þessa svæðis er opinn fyrir
trollskipum og alveg fyrir netum, lúðulínu og handfærum.  Svæðið er á þeirri slóð sem hornfirskir
smábátar geta stundað róðra fyrir norðanáttum og er þetta eina svæðið sem þeir
fá var fyrir vindum.

 

Í stjórn Hrollaugs eru
eftirtaldir:

Unnsteinn Þráinsson formaður

Friðþór Harðarson ritari

Grétar Vilbergsson gjaldkeri