Auðlindin endurvakin


 

 Auðlindin hefur göngu sína á ný í Útvarpinu
miðvikudaginn 12. nóvember næstkomandi.  Þátturinn verður með breyttu sniði og á nýjum tíma.  Hann verður sendur út að loknum kvöldfréttum
í Útvarpinu, á báðum rásum, klukkan 18:15 og verður um sjö mínútur að lengd.  Auðlindin verður helguð íslensku
atvinnulífi með sérstakri áherslu á framleiðsluatvinnuvegina sem og nýsköpunar-
og sprotafyrirtæki.

 

Ekkert úr atvinnulífinu verður Auðlindinni
óviðkomandi, þar verður fjallað um sjávarútveginn, sem ætla má að fái verðugan
sess hvern dag, um landbúnað, iðnað, ferðaþjónustu, stóriðju, orkuframleiðslu,
hvaðeina sem færir þjóðfélaginu tekjur og styrkir innviði samfélagsins.

 

Þátturinn verður á dagskrá alla
virka daga, umsjónarmenn verða Þórhallur Jósepsson fréttamaður í Reykjavík og
Karl Eskil Pálsson fréttamaður á Akureyri. Ýmsir pistlahöfundar leggja Auðlindinni
lið, þar fara fremstir í flokki Gísli Einarsson sem verður landbúnaðarsérfræðingur
Auðlindarinnar, og Gísli Kristjánsson sem flytur tíðindi frá Noregi og öðrum nálægum
löndum.


Auðlindin þiggur með þökkum ábendingar um hvaðeina sem frásagnarvert
gæti verið. Hægt er að hafa samband við umsjónarmenn í símum 0-30-515 og 515
3030 í Reykjavík og 0-70-464 á Akureyri. 


Netfangið er audlindin@ruv.is




Landssamband smábátaeigenda fagnar því sérstaklega að RÚV skuli endurvekja Auðlindina, en mikil eftirsjá var í henni á sínum tíma.  Þrátt fyrir fjölmargar ályktanir og áskoranir tókst ekki að fá RÚV til að endurskoða ákvörðun sína þá.   En nú hefur verið gerð breyting á, Auðlindin fer í loftið nk. miðvikudag 12. nóvember og verður uppfrá því á hverjum virkum degi kl 18:15.