,
Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum í gær 21. nóvember:
„Í upphafi sl. sumars vann Landssamband smábátaeigenda samantekt fyrir
sjávarútvegsráðuneytið á hlutfalli þeirrar aflahlutdeildar hjá smábátum sem
skipt hefðu um hendur í viðskiptum.
Samantektin var meðal þess sem ráðuneytið nýtti sér við gerð
greinargerðar um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Við vinnslu hjá LS kom m.a. í ljós að
mikill meirihluti smábátaeigenda, milli 80 og 90%, hefði bætt við sig aflaheimildum eða keypt sig alfarið inn í
atvinnugrein þá sem starfar í því umhverfi sem lögin um stjórn fiskveiða setja
ramma utan um.
Brotthvarf
sóknardagakerfisins
Í rauninni kemur þetta ekki á óvart þar sem krókabátum með aflahlutdeild í
þorski hefur á síðastliðnum fjórum árum fækkað um rúman helming. Við brotthvarf sóknardagakerfisins 1.
september 2004 voru þeir um átta hundruð, en á yfirstandandi fiskveiðiári er
fjöldi þeirra komin undir fjögur hundruð.
Veiðiheimildir þessara báta hafa án undantekninga færst yfir á þá sem nú
heyja harðvítuga baráttu í þeim ólgusjó sem um þessar mundir geisar í
efnahagslífi þjóðarinnar.
Varla þarf að tíunda það á þessum vettvangi að kostnaður vegna þessarar
„hagræðingar“ útheimti gríðarlega fjármuni eða sem nemur tugum milljarða á
þessu árabili. Mikill
meirihluti kostnaðarins var fjármagnaður með lánum og þá nær einvörðungu í
erlendri mynt.
Lán
hækka, kvótinn skerðist
Eins og hjá öðrum Íslendingum er álagið mikið þessa dagana.
§ Lánin hafa
hækkað, mörg hver yfir hundrað prósent á stuttum tíma, vegna gengishruns
krónunnar.
§ Skerðing
veiðiheimilda í þorski hefur samanlagt, á yfirstandandi fiskveiðiári og því
síðasta, verið 126 þús. tonn sem er aðeins fjögur þúsund tonnum minna en
útgefin heildarafli í þorski er.
§ Í þriðja lagi
andar köldu frá ýmsum alþingismönnum í garð þessara aðila og það smitast út í
samfélagið. Krafist er að þeir
skili til ríkisins veiðiheimildum sem þeir hafa greitt fyrir og kaupi þær svo öðru
sinni.
Ósanngjarn
málflutningur
Sá er hér ber á lyklaborð finnst síðast taldi brimskaflinn með ólíkindum,
ósanngjarn með afbrigðum. Hann
fullyrðir að vart finnist hér hæfari einstaklingar en þeir sem nú gera út og
róa á smábátum. Þeir sem hættir
eru hafa fengið greiðslur fyrir það, greitt var með beinhörðum peningum sem
eins og áður var minnst á voru teknir að láni og nú er barist við að standa í
skilum með. Minnt skal á að þeir
fjármunir voru ekki teknir úr vasa hins almenna borgara.
Gefum
þeim starfsfrið
Það er sérstakt lán fyrir þjóð sem lifir á sjávarútvegi að hún skuli eiga
slíka úrvals sjó- og útgerðarmenn sem skipa það lið sem gerir verðmæti úr
nytjastofnum sem er sameiginleg eign hennar. Það er aldrei mikilvægara en nú. Án þeirra væru verðmætin aðeins fólgin
í vitneskjunni um ónýtta nytjastofna á Íslandsmiðum.
Gefum þeim starfsfrið. Þjóðin þarf á þeim öllum að halda, hún má ekki missa
fleiri út úr greininni.“
Höfundur er
framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
,