Enn ber Hafrannsóknastofnun fyrir sig veiðanleika. Þetta gengur ekki!


Í nýjustu Fiskifréttum birtist eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason, formann LS:

Fyrir langa langa langa löngu rukkaði ég
Hafrannsóknastofnunina um línurit yfir „veiðanleika“ fisktegunda á
Íslandsmiðum. Ástæðan var sú að vel veiddist, bæði í togararalli sem og í
atvinnuveiðum.  Hafrannsóknastofnunin
skýrði góða veiði sem svo að þorskurinn hefði verið mjög „veiðanlegur“. 

Ekkert svar hefur borist frá stofnuninni um þetta
lykilatriði. 

Orðið „veiðanleiki“ ætla ég það teygjanlegasta sem til er
í veröldinni þegar skýra þarf góða veiði eða lélega, stóra stofna eða litla,
umhverfisástand og svo videre.

Fáránlegt hugtak

Ég spyr: 

HVERNIG Í HOPPANDI H…… dettur VÍSINDAMÖNNUM í hug að bera
fyrir sig jafn fáránlegt hugtak þegar þeir veiða skár en venjulega?  Nota Bene:  Orðið er ALDREI notað þegar þeir fá ekki upp á hund. Dettur
þeim ALDREI í hug þegar togararall veiðir lítið sem ekki neitt (reglan) að
segja:  „þorskurinn var bara…
óveiðanlegur…“?

Hafrannsóknastofnunin skuldar veiðimönnum skýringar á
þessari hugtakanotkun sinni. Hún getur ekki lengur skákað í skjóli upphafinnar
dulvisku fram yfir brjóstvit og reynslu veiðimanna. Manna sem erja miðin alla
daga, en ekki þau örfáu nónbil sem togararöllin standa yfir þar sem
veiðimaðurinn er með bundið fyrir augun, dragandi á eftir sér handónýt
veiðarfæri. 

Áskorun

ÁSKORUN TIL HAFRANNSÓKNASTOFNUNARINNAR: 

BIRTA LÍNURIT UM „VEIÐANLEIKA“ ÞORSKS!

Greinagerð:

 FYRST
STOFNUNIN TALAR UM „VEIÐANLEIKA“ HLÝTUR HÚN AÐ HAFA GAGNAGRUNN Á BAK VIÐ ÞÁ
FRAMSETNINGU. VEIÐIMENN KREFJAST ÞESS AÐ UPPLÝSINGARNAR VERÐI SETTAR UPP Á
BORÐ! EKKI SÍÐAR EN STRAX!

70% hærri vísitala í
haustralli!

Ástæða þess að ég hamra á framangreindu er að haustrall
Hafrannsóknastofnunarinnar 2008 mældi vísitölu þorskstofnsins 70% (SJÖTÍU
PRÓSENT!) hærri en í síðasta haustralli. 

Hafrannsóknastofnunin tekur ekki meira mark á eigin
mælingum en svo að nú skal bíða næsta vorralls – til að fá staðfestingu á
þessum tíðindum.  Ef mælingin hefði
verið á hinn veginn –  hvað
þá?         

Þeir sem nenna að
lesa skýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar komast að því að notkun orðsins
„veiðanleiki“ er sjaldgæf. Í skýrslunni „Nytjastofnar sjávar 8-20-2007“ kemur
þetta orð fyrir í umfjöllun um löngustofninn og eins og við var að búast –
vegna þess að óþarflega mikið veiddist af kvikindinu.

 

Núna dúkkar þetta
orð hins vegar upp varðandi þorskinn eftir haustrallið 2008.

 

Úr Skýrslunni: 

Líklegt er þó að a.m.k. hluta
aukningarinnar nú megi rekja til aukins veiðanleika
vegna minni sóknar á veiðislóð þorsks líkt og gerðist árið 1997, en það leiddi til ofmats á þorskstofninum á
árunum í kringum aldamót“.

 

Birtið gögnin

 

Fullyrðingin fyrir aftan kommuna gerir að verkum að Hafrannsóknastofnunin
verður nú að birta þau gögn sem styðja þessa alhæfingu. Þá væri ekki úr vegi –
fyrst hinn mikli veiðanleiki byggist á „minni sókn á veiðislóð“ – að stofnunin
birti yfirlit yfir veiðiálagið á togstöðvunum í gegn um árin.

Reyndar spurði ég eitt sinn eftir því hvort ralltogararnir þyrftu oft að
bíða eftir öðrum skipum til að komast í togin. Svarið var: „Við sjáum aldrei
skip….“!

 

Ég hef fyrir löngu skýrt frá þeirri bjargföstu sannfæringu minni að
togararallið sé ónýt mælistika og hafi kostað þjóðarbúið hrikalegar
fjárupphæðir. Niðurstaða haustrallsins er enn ein sönnun þess fyrir mig. Hvert
einasta mannsbarn veit að þorskstofninn stækkaði ekki um 70% frá því fyrir ári
síðan. 

 

Ný aðferðarfræði nauðsynleg

 

Það ferlegasta í þessu er að þótt þessi „mæling“ sýni mun öflugri
þorskstofn en í vor eða fyrrahaust, er enn verið að vanmeta stærð hans.  Því hefur aldrei verið eins aðkallandi
og nú að taka upp nýja aðferðafræði við að mæla stærð fiskistofna.   

Hvernig væri að sjávarútvegsráðuneytið myndi efna til hugmyndasamkeppni í
þeim efnum? Það væri glæsileg jólagjöf til íslensku þjóðarinnar.

 

Ég óska lesendum gleðilegra hátíða og fengsældar á komandi ári.