Lögskráning úrelt fyrirbrigði

 

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 19. mars sl.  Yfirskrift hennar:  „Hvað eru menn eiginlega að hugsa?   Lögskráning úrelt fyrirbrigði

Enn á ný er gerð tilraun til að troða lögskráningu upp á
smábátaútgerðina.  Fyrir Alþingi
liggur frumvarp samgönguráðherra þess efnis sem er nú til umfjöllunar í
samgöngunefnd. Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur skilað umsögn um
frumvarpið og mótmælt þeim þætti sem á við smábátaútgerðina um að skylt verði
að lögskrá á öll skip í stað skipa 20 brt. og stærri. 

 

Markmiðin

Markmið lögskráningar eru fimm. 

1.           
Að tryggja að sjómenn hafi gild skírteini til þess að starfa um borð í skipi.

2.           
skip hafi gilt haffærisskírteini. 

3.           
lögboðin áhafnartrygging sé í gildi. 

4.           
tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni.

5.           
siglingatími sjómanna sé skráður.

 

 

Á sér ekki hliðstæðu

Í athugasemdum með frumvarpinu er það talið því til tekna
að lögskráning eigi sér ekki hliðstæður hjá öðrum þjóðum. Einnig er greint frá
því að sögu lögskráningar megi rekja aftur til ársins 1889. Fyrra atriðið er
mjög skiljanlegt miðað við það sem hér fer á eftir, en það síðara minnir okkur
á nauðsyn og mikilvægi laganna við þær aðstæður sem ríktu fyrir 110 árum og 70
– 80 árum sem þá fóru í hönd.

 

Lög um lögskráningu eru glöggt dæmi um lög sem gleymst
hefur að afnema.  Lög um áhafnir
skipa, sjómannalög, skráningu skipa, eftirlit með skipum, smíði og búnað skipa,
hafa tekið yfir öll þau atriði sem felast lögskráningarlögunum.  Lög um lögskráningu fjalla því í raun
um ekkert annað en að fara að lögum!

 

 

Um hvað snýst málið? 

Skoðum markmiðin nánar.

Að tryggja að
sjómenn hafi gild skírteini til þess að starfa um borð í skipi.
Rafrænar
upplýsingar nútímans greina allar frá því hver staða skírteina er. Bæði er
kveðið á um eftirlit á sjó og í landi til að athuga með stöðu skírteina. Skýr
ákvæði eru um það í lögum um mönnun hvaða réttindi menn eiga að hafa til hinna
ýmsu starfa á skipi.   Afar
ólíklegt er að réttindamönnum sé það ekki ljóst hvaða gildi ógild skírteini
hafa.

 

Að skip hafi gilt
haffærisskírteini.
   Í
lögum um eftirlit skipa er kveðið á um haffæriskírteini. Óheimilt er að fara á
sjó án þess að það sé í gildi. 
Ákvæðið með öðrum orðum dekkað með öðrum lögum.

 

Að lögboðin
áhafnatrygging sé í gildi
. Skýrt kveðið á um þau málefni í sjómannalögunum. Einnig
er rétt að benda á að síðast þegar lögskráningarlögum var breytt var
stjórnskipuð nefnd skipuð um hvort rétt væri að lögin myndu gilda fyrir áhafnir
allra skipa. Því hafnaði nefndin alfarið en lagði til að útgáfa
haffærisskírteinis væri óheimil öðruvísi en að tryggingafélag hefði sent
staðfestingu um lögboðna slysatryggingu til Siglingastofnunar.  Hér er því kerfi fyrir hendi sem þeir
er nú heyra undir lög um lögskráningu geta nýtt sér, sem reyndar er lagt til
samhliða lögskráningarfrumvarpinu.  

 

Að tryggja sönnun
fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni.
  Á engan veginn við í dag, en var að
sönnu nauðsynlegt fyrir 50 til 100 árum, þegar ókunnugir menn dúkkuðu upp við
skipshlið og var kippt um borð þegar landfestar voru leystar.

 

Að siglingartími
sjómanna sé skráður.
  Næg gögn
fyrir hendi í dag til að sýna fram á slíkt.  Þar má nefna launaseðla, greiðslur í lífeyrissjóði,
skattaskýrslu og fjölmargt fleira í þeim efnum.

 

Niðurstaðan er því skýr.  Samgöngunefnd á að afgreiða frumvarp um lögskráningu og
leggja til að lögin verði felld úr gildi.

 

 

Skerðing réttinda og
galið ákvæði

Áður en ég læt lokið þessum skrifum mínum er rétt að
minnast á tvö atriði sem frumvarpið felur í sér og ástæða er til að vekja athygli
á. Annað þeirra skerðir réttindi áhafna sem falla undir lögskráningu en hitt er
að öllu leyti galið og vart hægt að ætlast til að full alvara sé á bak við það.

 

Lög um lögskráningu fela í sér ríkistryggða bakábyrgð á
lögboðnum áhafnartryggingum. Verði frumvarpið að lögum fellur sú ríkisábyrgð úr
gildi. Það er með ólíkindum að ekki sé minnst á þetta atriði í greinagerð með
frumvarpinu.

 

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um rafræna
lögskráningu. Í athugasemdum við greinina kemur fram „að lögskráð
skuli í skiprúm í
hvert skipti
þegar lagt er úr höfn og lögskráð skuli úr skiprúmi í hvert
skipti þegar komið er til hafnar“!  
Ekki þarf að hafa fleiri orð um þennan þátt frumvarpsins.

 

Áskorun

Fyrir liggur að hagsmunasamtök í sjávarútvegi að LS
undanskildu eru fylgjandi lögunum, í það minnsta þeim þætti að smábátaeigendum
verði skylt að lögskrá. 

 

Ég skora á sjómanna-, skipstjóra- og vélstjórasamtökin
og LÍÚ að koma í lið með LS og mæla með að lög um lögskráningu verði
aflögð.   Að öðrum kosti bið
ég samtökin um láta af þeim leiða ósið að hlutast til um málefni smábátaeigenda
sem ekki varða þeirra hagsmuni. 

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.“