Firnagóð hugmynd?

Í síðustu viku birtist eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason um fyrningarleið ríkisstjórnarinnar:

„Á stefnuskrá beggja flokkanna sem líklega eru að myndi næstu
ríkisstjórn er að innkalla veiðiheimildir í sjávarútvegi.  Fara svokallaða „fyrningarleið“ og taka
20 ár í að núlla stöðu fyrirtækjanna. 

Rót þessarar áætlunar er viðvarandi óánægja meðal
þjóðarinnar með kvótakerfið.  Þar
eiga aðilar innan sjávarútvegsins sína sök og sú gjörð yfirvalda að læsa nánast
allar veiðar innan múra kerfisins. 

Að loka öllum gluggum

Ég hef til fjölda ára varað við þessu:  Fyrr eða síðar myndi það koma
sjávarútveginum í koll að skilja ekki eftir „glugga“ á kerfinu tengt
smábátaflotanum.  Landssambandi
smábátaeigenda (LS) tókst að verja slík vígi í 20 ár.  Það næstsíðasta fauk þegar þáverandi sjávarútvegsráðherra
slátraði dagakerfinu 2004, þrátt fyrir loforð um að viðhalda því.  Þar með var búið að troða
smábátaflotanum inn í kvótakerfi og ekki annar kostur í boði en að gera það besta
úr hlutunum.  Í dag eru
grásleppuveiðarnar eina vígið sem eftir stendur. 

Hvar voru þeir þá?

Ekki minnist ég þess sérstaklega að flestir þeirra sem nú
hafa allt á hornum sér varðandi fiskveiðikerfið hafi lagt LS lið í þessari
baráttu.  Af orðræðu undanfarinna
missera hef ég stundum á tilfinningunni að hún hafi hreint aldrei farið
fram.  Þá eru margir hinna sömu með
það á hreinu að smábátaútgerðin sé rústir einar.  Þeir hafa greinilega ekki haft fyrir því að kynna sér þá
staðreynd að hún hefur aldrei lagt meira til þjóðarbúsins en nú.

Ég ætla að taka það sérstaklega fram að þetta greinarkorn er
ekki skrifað til stuðnings kvótakerfinu – né nokkru öðru fiskveiðikerfi
sérstaklega.  Ég tel reyndar að
litlu skipti hvað fiskveiðikerfið heitir, sé á annað borð búið að loka allt og
læsa innan girðinga.  Þau yrðu öll
tilefni ósættis og óánægju.  Það er
jafn nauðsynlegt í þeim öllum að skilja einhvers staðar eftir „gluggann“
framangreinda. 

Ég vil með þessum skrifum einungis lýsa hluta af þeim
raunveruleika sem blasir við þeim sem eru að starfa í sjávarútvegi.  

Fimm prósent fyrning
á ári

Til að fullnægja réttlætinu skal fara „fyrningarleið“.  Ég hef lagt mig eftir því að fá útskýrt
hvernig hún skal framkvæmd.  Þar
vantar mikið á:  Það sem aðilar í
sjávarútvegi fá að heyra er: 
Aflaheimildir skulu innkallaðar á 20 árum, 5% á ári. 

Þessi
framsetning dugar skammt til að skýra hlutina.  Ef afskrifa á 5% á ári, tekur um 550 ár (ekki prentvilla) að
ná svo til öllum aflaheimildunum til ríkisins.  Framsetningin „20 ár, 5% á ári“ er mjög villandi:  Eina leiðin til að hún gangi upp er að
stöðugt sé miðað við upphaflegu töluna. 
En það eru ekki 5% á ári. 
Prósentan hækkar stöðugt í áranna rás.  Meðfylgjandi tafla sýnir hina raunverulegu þróun milli
ára.  Í henni er gert ráð fyrir að
fyrningin hefjist á næsta fiskveiðiári og reiknað út frá aðila með 100 tonn af
veiðiheimildum á því sem nú styttist í. Ég vek sérstaka athygli á
prósentutölunni í töflunni.

Picture 2.png 

,,Til eflingar sjávarbyggða” 

Ég
viðurkenni fúslega að það vefst fyrir mér hvernig þessi aðferð á að „efla
sjávarbyggðirnar“, eins og „fyrningarleiðin“ á að gera. 
Aflaheimildirnar eiga að fara á
uppboð til að tryggja að „allir hafi sömu tækifæri“.  (Það er ekki verið að fyrna kvótakerfið, því skal
viðhaldið). 

Lítið dæmi: 
Sæli seldi frá sér aflaheimildir fyrir einhverju síðan til Barða.  Sæla hefur haldist vel á peningunum og hélt að auki bátnum.  Barði hefur í millitíðinni horft á
lánið sem hann tók hækka um helming og verðgildi aflaheimildanna rýrna um a.m.k
helming.  Þá er ótalin
vítamínsprautan – mínus 5% á fyrsta ári „fyrningaleiðarinnar“.  Hvor er í sterkari stöðu til að taka
þátt í uppboðinu?

Sáttaleið?

Það hefur
ítrekað komið fram að skuldastaða sjávarútvegsins í heild er afleit.  En sjávarútvegurinn er ekki eitt
fyrirtæki.  Staða fyrirtækjanna er
mjög misjöfn.  Mörg þeirra eru í
miklum vanda á sama tíma og önnur eiga góða daga – mitt í allri kreppunni.  Tækifæri þeirra eru því síður en svo
þau sömu.

Nú ætla ég að gerast spámaður í eigin föðurlandi:  Það verður fyrst þá sem „fyrninga- og uppboðsleið“ verður sett í framkvæmd, að allt verður stjörnuvitlaust út af fiskveiðikerfinu.