Þrátt fyrir að búsvæði grásleppunnar spanni svæðið frá Norðurpól til Portúgals og allt þar á milli, eru aðeins fjórar þjóðir sem veiða þennan fornaldarfisk að einhverju marki. Þessar þjóðir eru Noregur, Ísland, Grænland og Nýfundnaland.
Grásleppan er veidd hrognanna vegna. Þau eru um 20-25% af heildarþyngd skepnunnar úr sjó. Flökin eru aðeins um 13%. Því skal þó haldið til haga að flök grásleppunnar eru lostæti og ættu fyrir löngu að vera orðin fastur liður í mataræði landsmanna.
Grásleppan er einn örfárra „alvöru“ fiskistofna við Ísland sem enn hefur ekki verið settur í kvótakerfi. Veiðunum er stýrt með sóknartakmörkunum, þ.e. fyrirfram ákveðinni lengd vertíðar, stærð báta og netafjölda. Það er athyglisvert að eftir hart nær hálfrar aldar stýringu grásleppuveiðanna með þessu fyrirkomulagi var metvertíð þessa tímabils á síðasta ári.
Markaðurinn fyrir grásleppuhrognakavíar er agnarsmár í samanburði við sjávarafurðir almennt. Talið er að hann sé um 31 þúsund tunnur af hrognum.
Grásleppuvertíðin hefst í byrjun mars á Íslandi, ögn seinna í Noregi, í Grænlandi byrjar hún í apríl og síðastir eru Nýfundnalendingar. Þeir hófu veiðar sl mánudag. Gengi veiðanna þar er stóra spurningin á hverri grásleppuvertíð og getur haft gríðarleg áhrif á verð hrognanna.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Nýfundnalandi fer veiðin þar rólega af stað. Enn lokar hafís aðalveiðislóðunum við norð-austur ströndina. Þessar aðstæður geta þó breyst á örskotsstundu.
Norðmenn eru að veiða um helming þess sem þeir veiddu í fyrra og í Grænlandi er veiðin minni en í fyrra.
Sem þetta er skrifað bendir allt til þess að verð haldist gott á grásleppuhrognum og fari jafnvel hækkandi.
Grásleppuvertíðin hafin í Langanesbyggð – líf færist yfir hafnirnar