Martröð grásleppukarlsins

Gunnlaugur Finnbogason, smábátaeigandi og grásleppukarl sendi eftirfarandi grein um þá plágu sem skötuselurinn er orðinn víða um land:

Hlýnun sjávar hefur breytt fiskigöngum við Ísland.  Má í því sambandi nefna

tvo stofna, makríl sem farinn er að koma inn í íslenska landhelgi og skötusel

sem farinn er að sjást í talsverðu mæli við NV-vert landið og eitthvað við

Norðurland.  Mikill munur er á þessum stofnum.  Norðmenn og fleiri eiga

makrílkvóta, en það breytir engu.  Um leið og stofninn gengur inn

í íslensku lögsöguna mega íslensk skip veiða hann að vild.  Þetta er góð

búbót og er ég sammála því að nýta makrílinn.            

En sömu lögmál gilda ekki um skötuselinn í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu.  Þegar hann var settur í kvóta hélt hann sig eingöngu við Sunnan og  SV-vert landið og fengu því útgerðarmenn á því svæði allan kvótann.      

Á mínu heimasvæði við Ísafjarðardjúp er skötuselurinn sívaxandi plága við grásleppuveiðar.  En í þetta skipti flokkast þessi aukna fiskgegnd ekki sem búbót.  Ástæðan er sú að meðlimir LÍÚ eiga allan kvótann.

Enginn skötuselskvóti er í smábátakerfinu.  Þar er því um tvennt að ræða: að henda skötuselnum til að geta haldið áfram við grásleppuveiðarnar, eða borga meðlimum LÍÚ himinháan toll í formi kvótaleigu.  

Menn hafa nú látið sig hafa það að borga leiguna, en nú er svo komið að ekkert fæst leigt og ef ekki fæst leigukvóti fyrir 1.sept verður allt aflaverðmæti skötuselsins gert upptækt af ríkinu, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins.  Ég hef frétt af því að bátar við Breiðafjörð hættu grásleppuveiðum áður en vertíðin var búinn vegna þess að þeir fengu ekki leigðan skötuselskvóta.  

Þá er ekki öll sagan sögð.  Skötuselurinn er kallaður minkur hafsins og er hann að dunda sér við það hérna fyrir vestan að éta m.a. rauðmagann, maka grásleppunnar, sem sér um að passa grásleppuhrognin. Skötuselurinn er því algjör skaðvaldur á svæðinu. Í raun eru jafn mikil rök fyrir því að ekki megi veiða skötuselinn og að friða mink í æðarvarpi.  

Annað hvort verður skötuselurinn að vera utan kvóta sem meðafli við aðrar veiðar, eða LÍÚ útgerðirnar sem eiga stofninn skikkaðar til að passa sinn fisk og láta hann ekki vaða um allt land í auðlindir annarra.

 

Mitt í allri þessari stækkun stofnsins sem er að gera mönnum lífið

leitt, leggur Hafró til að draga saman veiðar á þessu villidýri um tæp 17%.

Þetta er því enn ein rósin í hnappagat þeirrar virtu stofnunar.  

Að lokum þetta; þetta sem kallast búbót eins og makríllinn, telst

plága hér á Vestfjörðum og víðar vegna þess að þá eiga einhverjir aðrir

fiskinn.  Það er því ekki sama Jón eða séra Jón.      

Treysti ég á að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra breyti lögum þannig að menn megi landa skötusel sem meðafla utan kvóta.

Gunnlaugur Finnbogason, grásleppukarl


gunnlaugur-finnboga.jpg


Gunnlaugur Finnbogason