Strandveiðarnar og fyrningarleiðin – breytingar í nafni sátta


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 2. júlí:

„Alþingi hefur
samþykkt breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem heimila strandveiðar. Strandveiðar
eru hafnar og allt stefnir í að um þrjú hundruð bátar muni taka þátt í
veiðunum. Til skiptanna eru 5-9-3 tonn af þorski sem skiptast á fjögur
landsvæði. Þar er aflanum deilt á þrjá síðustu mánuði fiskveiðiársins.

Allir bátar sem
hafa gilt haffæriskírteini geta fengið úthlutað strandveiðileyfi og stundað
veiðar með að hámarki fjórum handfærarúllum. Afli í hverri veiðiferð, sem ekki
má standa lengur en 14 klukkustundir, skal vera að hámarki 800 kg. 

 

LS fagnar strandveiðum

Skiptar skoðanir
hafa verið um hið nýja veiðikerfi. Landssamband smábátaeigenda er einu
hagsmunasamtökin í sjávarútvegi sem lýst hafa ánægju sinni með það. LS hefur
frá stofnun  samtakanna hvatt til
frjálsra handfæraveiða og sér nú eitt af baráttumálum sínum rætast. 

Það er sannfæring
mín að þessi breyting á lögum um stjórn fiskveiða verði til þess að viðhorf í
garð sjávarútvegsins verði jákvæðara. Starfsfriður sem nánast engin hefur verið
undanfarin misseri verður nú meiri og atvinnuöryggi betur tryggt. 

Með strandveiðum
er komið til móts við háværar óánægjuraddir sem sjaldnast hafa hljómað af sanngirni
í garð sjávarútvegsins. Almenningur er fylgjandi strandveiðum og lítur á þær
sem nauðsynlegan þátt í frelsi til þess að nýta auðlindina. Hann er fylgjandi
takmörkunum á veiðunum, en sér að með strandveiðum er verið að gefa öllum
tækifæri til að stunda fiskveiðar og hafa af þeim tekjur.


Innköllun kvótans

Mjög hefur verið
vegið að sjávarútveginum á undanförnum mánuðum.   Meirihluti þjóðarinnar hefur verið og er fylgjandi því
að veiðiheimildir verði innkallaðar og þar með að atvinnuréttur þeirra sem nýtt
hafa auðlindina verði skertur. 
Starfsumhverfið sem nú er mjög viðkvæmt yrði laskað enn meir og hætt við
að mörgum yrði það ofviða.  Umræðan
hefur oft á tíðum ekki náð háum hæðum, heldur einkennst af orðaforða sem á skylt
við bölv og ragn í garð þeirra sem staðið hafa öll fárviðri af sér.  Veðrabrigðin hafa m.a. lýst sér í
eftirfarandi þáttum: Stórauknum tilkostnað svo sem til eflingar
eftirlitsiðnaðinum, skertum veiðiheimildum í þorski, lágu afurðaverði,
olíuverði sem nálgast hefur fimmtung af aflaverðmæti einstakra útgerðarflokka,
himinháu verði á veiðirétti og síðast en ekki síst greiðslu til þjóðarinnar
fyrir úthlutaðar veiðiheimildir – veiðigjald. 

Hækkun veiðigjalds í stað fyrningar

Hagsmunasamtök í
sjávarútvegi sem tjáð hafa sig um fyrningarleið ríkisstjórnarflokkanna hafa öll
lýst andstöðu við hana. Færð hafa verið sterk rök gegn henni sem skilað hefur
góðum árangri. Það má hins vegar ekki slaka neitt á í þessum efnum, heldur
verður að nota hvert tækifæri sem býðst til að upplýsa um stöðu sjávarútvegsins
og mikilvægi hans fyrir þjóðina.

Auk strandveiða
tel ég að sjávarútvegurinn geti stuðlað að aukinni sátt meðal þjóðarinnar um stjórn
fiskveiða með því að bjóða hækkun á veiðigjaldi. Minnt skal á að veiðigjaldi
var komið á til að ná sátt um sjávarútveginn. Í auðlindanefnd var tekist á um
tvær leiðir til að ná því marki. Annars vegar innköllun aflaheimilda og hins
vegar veiðigjaldi. Niðurstaðan varð sú að útgerðin myndi greiða gjald fyrir
aðgang að sameiginlegri auðlind allra landsmanna, nytjastofnum á Íslandsmiðum. Gjaldinu
var komið á og tekur upphæð þess mið af afkomu útgerðarinnar.

 

Aðrir greiða ekki auðlindagjald

Í þau fjögur ár
sem veiðigjaldið hefur verið innheimt hefur það skilað þjóðinni 2,4 milljörðum
á verðgildi hvers árs. Ágætt er að rifja þetta hér upp og einnig gott að minna
á að ekkert bólar á gjaldtöku fyrir afnot annarra auðlinda.  Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin
sem greiðir þjóðinni fyrir afnot af náttúruauðlindum hennar. Það þarf því engan
að undra þótt atvinnugreinin bregðist hart við þegar það sem samþykkt var til
sátta skuli nú gleymt og grafið og rykið dustað af því sem hafnað var.

Á málþingi í
Vestmannaeyjum sem haldið var 4. júní sl. hvatti ég til að annar liður
sáttarinnar um sjávarútveginn væri sá að í stað fyrningarleiðar kæmi hækkun á
veiðigjaldi sem tæki, eins og eðlilegt getur talist, mið af afkomu
atvinnuvegarins.



Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands
smábátaeigenda. 

,

Strandveiðibátar – aðeins 2% heildaraflans fluttur óunninn úr landi”


Uppskriftir