Margir þingmenn
hafa sagt í umræðunni um aðild að ESB að það að senda inn formlega umsókn um
aðild sé ein stærsta ákvörðun Íslandssögunnar. Ég vil því að það komi skýrt
fram að við afgreiðslu á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Vinstri
hreyfingarinnar græns framboðs og
Samfylkingar að ég studdi ekki þau áform að sækja um aðild og lét bóka
það í þingflokknum og að ég áskyldi mér rétt til að fylgja sannfæringu minni í
þeim efnum við afgreiðslu málsins. Þennan sama fyrirvara hafði ég á þegar málið
var afgreitt úr ríkisstjórn. Þessi
afstaða mín hefur ætið legið ljóst fyrir. Enda er þessi afstaða í samræmi við
stefnu míns flokks. Hins vegar geri ég mér grein fyrir að skiptar skoðanir eru
um það í þjóðfélaginu og því var það skýrt að Vinstri hreyfingin grænt framboð
tryggði að þetta mál kæmi fyrir þingið en þó ekki samþykkt þess. Þar væri hver
þingmaður einungis bundinnn sannfæringu sinni.
Ég vil einnig
leggja áherslu á það að verði tillaga um aðildarumsókn samþykkt á Alþingi og
farið verði í aðildarviðræður mun ég leggja mig allan fram fyrir hönd míns
ráðuneytis í að halda sem best á málum til að tryggja hagsmuni íslensku
þjóðarinnar í þeim samningum Ég geri mér fyllilega grein fyrir að þeir
málflokkar sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið fer með,
grunnatvinnuvegir þjóðarinnar eiga hvað mest í húfi í þeim samningum. Ég mun
því gera það sem í mínu valdi stendur til að ráðuneyti sjávarútvegs- og
landbúnaðarmála og stofnair þess geri sig mjög gildandi í samningaferlinu öllu
og þannig verði hagsmunir þessara atvinnugreina best tryggðir. Hér á eftir fer
ég yfir þær aðstæður sem liggja fyrir komi til þess að sótt verði um aðild.
Aðildarviðræðurnar
Aðildarviðræður
eins ríkis við Evrópusambandið eru sérstæðar á þann hátt að þar er eitt ríki að
semja við fjölmörg önnur, nú 27 á grundvelli sem getur ekki verið
jafnræðisgrundvöllur. Það er ekki jafnræðisgrundvöllur af þeirri ástæðu að ekki
er verið að semja um að mynda sameiginlega stefnu eins og í landbúnaðarmálunum
heldur einfaldlega um að aðildarumsóknar ríkið taki alfarið upp
landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins frá fyrsta degi sem samningurinn tekur
gildi, þó hugsanlega með einhverjum aðlögunartíma fyrir þau atriði sem kunna að
valda hvað mestum vandræðum við yfirtöku hinnar sameiginlegu löggjafar
Evrópusambandsins.
Það verður hlutverk
Íslands að taka yfir og innleiða öll atriði hinnar margflóknu sameiginlegu
landbúnaðarlöggjafar Evrópusambandins en möguleikar á því að í hana verði bætt
sér auka ákvæðum vegna Íslands eru mýrarljós, sem varasamt er að trúa á og
hlaupa eftir, þó svo að það væri gott ef satt væri. Það er hinsvegar ekki
reynsla þeirra landa sem í hlut hafa átt undanfarin ár og við erum minnug orða
norska landbúnaðarráðherrans og fleiri nýlega þar sem að hann varaði okkur við
trú á jólasveininn, þetta á við fullorðið fólki vel að merkja.
Það hefur verið
vitnað mikið til ákvæða í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem heimila
viðkomandi löndum að veita sjálf sérstakan stuðning, sem er tengdur við
svokallaðan heimsskautalandbúnað norðan 62 breiddargráðu. Þessi lausn var
fundin þegar að Evrópusambandið stækkaði til norðurs við aðild Svía og Finna
árið 1994 auk þess sem Norðmenn voru hluti af þessu samkomulagi og var leið til
að skapa landbúnaði þessara landa einhvern
tilverumöguleika á hinum sameiginlega markaði fyrir landbúnaðarafurðir, sem
löndin voru að gangast undir við aðildina.
Annar reginmunur
sem er á samningsaðstöðu Íslands og Evrópusambandsins ef kemur að
aðildarsamningum, er að í raun er Ísland að semja við fleiri aðila í einu. Það
felst í að þó að Framkvæmdastjórin sé í stjórnsætinu þá eru þar á bak við
Ráðherraráðið, Þingið og hin einstöku lönd, sem þurfa hverju sinni að samþykkja
hvert skref í samningunum. Það felur í sér m.a. að þó svo að Framkvæmdastjórnin
hafi hugsanlega fallist á einhverja lausn við Ísland er mögulegt það verði
dregið til baka ef Ráðinu eða einhverju landanna hugnast hún ekki. Þessu er
öfugt farið með umsóknarríkið, sem verður að standa við þau tilboð eða kröfur,
sem það leggur fram. Þar verður hjólinu ekki snúið til baka. Dæmi um þetta má
nefna úr aðildarsamingum norðurlandanna, en bæði Noregur og Finnland gerðu
kröfu um að fá að aðlagast landbúnaðarverðum Evrópusambandins yfir lengra
tímabil. Það er að segja að landbúnaður landanna nyti tímabundinnar tollverndar
sem gerði það að verkum að verð til bænda fyrir landbúnaðarafurðirnar féllu
ekki niður úr öllu valdi við aðildina eins og varð svo niðurstaðan.
Framkvæmdastjórnin var jákvæð því í upphafi, en dró það allt til baka þegar að
að samingslokum kom vegna andstöðu einhverra aðildarlanda. Það þurfti ekki
meira til.
Þá eru einnig dæmi
um það frá fyrri aðildarsamningum að þegar kemur að því að túlka samningana og
setja þá í lagalegt form, komi fram önnur túlkun af hálfu Evrópusambandsins en
umsóknarríkin töldu sig hafa samið. Hafa verður í huga að Framkvæmdastjórnin
hefur langa reynslu í samingagerð um stækkun og framsetningu þeirra ákvæða á enska
tungu, sem gerir umsóknaraðilanum erfitt fyrir að standast oft á tíðum og
veitir Framkvæmdastjórninni yfirburði, sem verður óhjákvæmilega að mæta með
nægum mannafla með verulegum
kostnaði. Villur eða mistök af hálfu umsóknarríkisins verða ekki leiðrétt og
því dýrkeypt því aðildarsamningi verður ekki breytt með venjubundinni
lagasetningu af hálfu Evrópusambandsins. Það þarf samþykki allra 27
þjóðþinganna til.
Það er þekkt að
landbúnaður og fiskveiðar eru langsamlega erfiðustu viðfangsefnin á því
samningsferli sem hér er um rætt. Ástæða þess er sem kunnugt að landbúnaðar- og
fiskveiðipólitík falla utan samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið þó svo að
aðeins sé lítilega komið inn á landbúnaðarpólitík í samningum í bókun þrjú um
tolla á unnum landbúnaðarafurðum og í grein 19 um frumafurðir í landbúnaði.
Bókun þrjú felur í sér saming milli aðila á Efnahagssvæðinu, þ.e.a.s. Íslands,
Noregs og landa Evrópusambandsins, um að lækka tolla á nokkrum tilteknum unnum
landbúnaðarafurðum sín á milli, til að gera viðskipti með þær mögulegri. Á
grundvelli 19. greinarinnar hafa ríkin hinsvegar gert tvíhliða saming sín á
milli um tollaívilnanir fyrir hrávörur svo sem kjöt, mjólkurafurðir og grænmeti
og milli Íslands og Evrópusambandsins lífhross. Þessir samningar hafa lítil áhrif
á heildar útkomu landbúnaðarins á Íslandi og því minniháttar við mat á því hvað
yfirtaka hinnar almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandinsins þýðir fyrir
Ísland. Sambærilegt gildir um fikinn í þessu sambandi. Það verður því
grundvallarverkefni að vinna, áður en unnt er að hefja samingaferil um aðild að
landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins að leggja niður fyrir sér fyrir hverja
búgrein og fyrir landbúnaðinn í heild, hvaða efnahagsleg áhrif fyrir bændur,
vinnslustöðvar í landbúnaði, úrvinnslu landbúnaðarafurða, verslun og viðskipti
með landbúnaðarafurðir og ekki síst möguleika neytenda á vali af
landbúnaðarafurðum, möguleg aðild hefði. Þessa útreikninga þarf að vinna nánast
fyrir hverja búsgerð í landinu til að átta sig á um hvað þarf að semja og hvar
er nauðsynlegt að draga mörk svo búin haldi lífi í þeirri samkeppni sem verið
er að bjóða uppá með aðildinni. Ég ef það ekki að vinna vegna
fiskveiðistefnunnaar verða með hliðstæðum hætti. Þessi framkvæmd mun krefjast
mikillar sérfræðivinnu og mannafla, sem verður dýrt að spara verði gerð mistök.
Það er líka þekkt
að hin almenna landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er í sífelldri þróun þó
deila megi um hraða þróun sjávarútvegsstefnunnar. Árið 2003 var gerð
umfangsmikil breyting á landbúnaðarstefnunni til að aðlagast væntanlegri útkomu
samningsins um hina Alþjóðlegu
viðskiptastofnun með hliðsjón af að viðhalda styrkjum innan Evrópusambandins
eftir nýju reglum. Sú stefnumörkun sem þá fór fram nær til ársins 2013 en fyrir
þau tímamörk verður að hafa farið fram endurskoðun og myndun nýrra stefnu til
næsta tímabils. Þó svo að hafi farið fram nokkur umræða um væntanlega
landbúnaðarstefnu eftir 2013 er ekki enn ljóst í dag í hvaða átt hún þróast.
Þessi staðreynd er hinsvegar grundvallaratriði og sérstakur óvissuþáttur fyrir
íslenskan landbúnað í hugsanlegum aðildarviðræðum, sem óhjákvæmilega kallar á
úrlausnir sem ekki verða gerðar eftir á en erfitt er að sjá fyrirfram. Það
gerir ennþá ríkari kröfu um framlag við samningsgerð sem þessa á sérhæfðu
vinnuafli og yfirlegu við verkefnið sem slíkt.
Verkefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins komi
til viðræðna
Samandregið snúast
verkefni sjavarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í mögulegum aðildarviðræðum
um að:
- Kynna fyrir ESB alla króka og kima
íslenskrar sjávarútvegs- og landúnarstefnu. Þar með talið aðstæður allar
ásamt öll lög og reglugerðir sem um þetta gilda svo eitthvað sé nefnt.
Ekki verður hætt fyrr en ESB telur sig hafa fullan skilning á því hvað hér
er um að ræða. - Á sama hátt verða fulltrúar Íslands að
kynna sér alla króka og kima landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu ESB og þar
má á sama hátt ekki hætta fyrr en fullur skilningur ríkir. - Eftir þetta þarf Ísland að leggja
niður fyrir sig hvaða sérkröfur skuli gera í aðildarviðræðunum, setja þær
fram og vinna þeim gengi. Til
fróðleiks þá voru sérkröfur Finna bara í landbúnaði um 130 hafi ég það
rétt eftir.
Ég held að allir
menn sjái, sem einhverja þekkingu hafa á landúnaði og sjávrútvegi, að þetta
verkefni er risavaxið. Umfangið er slíkt.
Kostnaður við aðildarviðræður
Rakið hefur verið
hér að ef taka á þátt í aðildarviðræðum við ESB af fullri alvöru þá mun það
kosta gríðarlega vinnu og fjármuni bara í landbúnaði og sjávarútvegi.
Ráðuneytið veit ekki til þess að um þetta hafi verið gerð raunhæf áætlun. Áætlun
sú sem lögð er fram í þingsályktuninni getur ekki staðist þar sem samtals 100
mkr. er veitt til allra ráðuneyta fyrir tveggja ára vinnu þeirra. Ekki má
gleyma því að vinna þarf öll venjulegu verkefnin í ráðuneytunum líka og á næstu
tveimur árum á að skerða rekstur ríkisins þ.m.t. ráðuneytanna um upphæðir sem
geta numið allt að tveimur tugum prósenta.
Í upphafi þessarar
greinar tiltók ég að það væri skoðun margra þingmanna að ákvörðun um að ganga
til aðildarviðræðna við ESB væri ein stærsta ákvörðun Íslandssögunnar og tek ég
undir það. Aðalatriðið er að komi til aðildarviðræðna geri allir sér grein
fyrir hversu umfangsmikið það verk í raun og veru er og ekki sé þá til þess
kastað höndum því hagsmunirnir sem liggja að baki eru gríðarlegir fyrir þessa
þjóð.
15. júlí 2009
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og lanbúnaðarráðherra
,