Aðalfundur Árborgar var haldinn í gær. Eftirfarandi tillögum var beint til aðalfundar Landssambands
smábátaeigenda sem haldinn verður í Turninum í Kópavogi 15. og 16. október nk.:
1. Aðalfundur Árborgar leggur til að
aðalfundur LS mótmæli harðlega öllum hugmyndum um afnám sjómannaafsláttar.
2. Árborg leggur til að aðalfundur LS
fagni tilkomu strandveiðikerfisins og berjist fyrir eflingu kerfisins. Þá
leggur fundurinn til að barist verði fyrir því að dagsafli verði takmarkaður
við þorskígildi en ekki kílótölu afla eins og var síðasta sumar, einnig að
mögulegt sé fyrir báta að velja sér svæði í byrjun vertíðar, að öðrum kosti verði
svæðisskipting afnumin.
3. Árborg leggur til að aðalfundur LS
beiti sér fyrir lagfæringum á úthlutun byggðakvóta þannig að fiskiskip geti
landað öllum afla sínum á fiskmarkað á viðkomandi svæði en krafa um löndun í
tilgreinda fiskverkun verði aflögð. Einnig sé þess krafist að byggðakvóta sé
úthlutað í byrjun fiskveiðiárs.
4. Árborg leggur til að aðalfundur LS
mótmæli harðlega ákvörðun sem tekin var fyrir tveimur árum um að opna fyrir
veiðar með snurvoð upp í fjöruborð við suðurströndina milli Þorlákshafnar og
Vestmannaeyja, það er óviðunandi að þessar veiðar séu stundaðar á sama tíma og
ýsukvótinn er skorinn stórlega niður eins og raun ber vitni. Það er áratuga
reynsla fyrir því að þessar veiðar stórskaða ýsustofninn og forsendan fyrir því
að efla ýsustofninn á svæðinu er að þessar veiðar séu stöðvaðar. Nú stunda mjög
öflug skip allt upp í fullvaxna togara þessar veiðar upp í fjöruborð þar sem
smáýsunni er mokað upp og í mörgum tilfellum hent í sjóinn aftur.
5. Árborg leggur til að aðalfundur LS mótmæli harðlega síendurteknum og stórfelldum niðurskurði á kvóta í ýsu og
þorski á sama tíma og veiðar ganga vel og allt bendi til að þessir stofnar séu
vel á sig komnir. Sama á við um aðrar tegundir svo sem löngu, keilu og
skötusel.
6.
Árborg leggur til að aðalfundur LS beyti sér áfram fyrir eflingu
línuívilnunar.
7. Árborg leggur til að aðalfundur LS hafni
alfarið inngöngu Íslands Evrópusambandið.
Stjórn Árborgar var endurkjörinn, en hana skipa:
Þorvaldur
Garðarsson formaður Þorlákshöfn
Haukur Jónsson varaformaður Eyrarbakka
Ragnar Jónsson ritari Selfossi
Stefán Hauksson gjaldkeri Þorlákshöfn
Ólafur Ingi Sigurmundsson meðstjórnandi Selfossi