Línuveiðar á ýsu verði frjálsar til áramóta


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 1. október sl.:

„Á nýliðnu fiskveiðiári veiddu krókaaflamarksbátar
tæpan fjórðung alls ýsuaflans, en hlutdeild þeirra í ýsukvótanum er aðeins
15%. 
Mismunurinn kom með færslu milli ára og línuívilnun.
Langmest munaði þó um veiðiheimildir sem þeir leigðu til sín úr
aflamarkskerfinu. Alls færðust 0-2-4 tonn þar á milli sem jafngildir um 150
milljónum í kvótaleigu eða um 40 kr. að meðaltali fyrir hvert kílógram af slægðri
ýsu.  Alls hafa krókaaflamarksbátar
bætt við sig með leigu tæpum 15 þús. tonnum á sl. þrem fiskveiðiárum.

 

Leigumarkaðurinn frýs

Þegar fréttir bárust af togararallinu í mars sl. var á forstjóra
Hafrannsóknastofnunar að heyra að veiðiheimildir yrðu minnkaðar í ýsu.  Frá þeim tíma fór að bera á erfiðleikum
að fá ýsukvóta leigðan. Þeir urðu enn meiri þegar ráðherra tilkynnti þriðjungs
niðurskurð í ýsu – skerðingu um 30 þúsund tonn. Menn sögðu að svo virtist sem
skrúfað hefði verið fyrir færslur úr aflamarki yfir til krókaaflamarksbáta. Bundnar
voru vonir við að úr rættist við upphaf nýs fiskveiðiárs. Þegar það gerðist
ekki var vonin framlengd til 15. september, þ.e. þegar fiskveiðiárinu yrði lokað
á skýrslum. Engin breyting varð og enn er allt fast.

 

Lokað á framsal frá stórútgerðinni

 Það er mikið áhyggjuefni að engu er líkara en búið sé að loka á allar færslur
frá stórútgerðinni til krókaaflamarksbáta. Stjórn LS hefur fjallað um vandann
sem upp er kominn og orðið sammála um að ræða hann við sjávarútvegsráðherra. Sjávarútvegsráðherra
hefur verið bent á að afleiðingar þessa gætu þýtt minni værðmæti á hvert veitt ýsukíló,
uppsagnir beitningafólks og sjómanna, að verðmætir markaðir erlendis tapist og
síðast en ekki síst að margir bátar muni lenda í erfiðleikum með að fullnýta þorskkvóta
sinn sökum meðafla í ýsu. 

 

Tillaga LS til ráðherra

 Stjórn LS metur stöðuna grafalvarlega þar sem leiga úr aflamarkskerfinu
hefur í raun skilið á milli feigs og ófeigs hjá mörgum krókaaflamarksútgerðum. Málefnið
þolir enga bið og því er tillaga LS stílbrot á leikreglum sem viðgengist hafa í
stjórnkerfi fiskveiða. Óskað er eftir að sérstakar reglur verði nú þegar settar
um línuveiðar á ýsu þannig að afli til áramóta muni ekki teljast til aflamarks
eða krókaaflamarks.  Magn þess sem
hver og einn bátur fengi að landa utan kvóta tæki mið af veiðum hans á sl.
fiskveiðiári.  M.ö.o. að bátur sem
veitt hefði allan sinn kvóta, 50 tonn, fengi að veiða 15 tonn innan þessara
reglna. Að sama skapi fengi þessi sami aðili að veiða 45 tonn utan kvóta hefði
hann veitt 150 tonn. Athugun gefur til kynna að það magn sem færi í þessar veiðar
gæti orðið um 8 – 9 þúsund tonn.

Viðbrögð sem komið hafa við þessari tillögu eru margvísleg, t.d. að
komið sé í bakið á þeim sem keypt hafa hlutdeild í ýsu á undanförnum árum. Svar
við því er það að þeir muni að sjálfsögðu hafa ávinning af þessari aðferð. Einnig
þeir sem hafa treyst á að fá leigða ýsu svo þeir geti nýtt þorskveiðiheimildir
sínar, þeir verða ekki kollkeyrðir í einni svipan. 


Mikill aðstöðumunur smærri og stærri útgerða

Einnig er spurt:  Hvers
vegna keyptu þessir aðilar sér ekki aflahlutdeild í ýsu, það er að segja
varanlegan kvóta?  Dæmi um svör við
því eru: Þeir höfðu ekki sama aðgang að fjármunum og stórútgerðin. Þeir fengu
ekki ódýrt fjármagn gegnum skráningu á hlutabréfamarkaðinn. Þeir hafa ekki getað
bætt sér upp skerðingar á veiðiheimildum með veiðum á fjarlægum miðum eða sókn í
nýjar tegundir. Þá er það einnig staðreynd að ekki eru mörg ár síðan engin ýsa
fékkst úti fyrir Norðurlandi. Viðmiðun gagnvart kvóta var því afar rýr á því svæði
og aðilar þar ekki trúaðir á viðvarandi ýsuafla. Þeir kusu því fremur að leigja
til sín ýsuveiðiheimildir en kaupa sér varanlegan kvóta.

Að öllu sögðu er ljóst að 15% hlutdeild krókabáta í ýsu er langt því frá
að vera nægjanleg svo hægt sé að ná hámarksafrakstri í nýtingu veiðiheimilda þeirra.“ 

 

Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda.

 

 

 

 

 

,

 

 

 

 

 

,

Línuveiðin svipur hjá sjón í Ísafjarðardjúpi eftir tilraunaveiðar Örfiriseyjar