Sjávarútvegsráðherra – botnfrosinn leigumarkaður áhyggjuefni – útilokar ekki afskipti hins opinbera


Aðalfundur LÍÚ var
settur í gær.  Jón Bjarnason sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn og kom víða við.   Hér eru birtir þrír kaflar úr
ræðu ráðherrans, sem fjalla um leigumarkaðinn, ESB og hugmyndir um að Hafró flytjist
frá sjávarútvegsráðuneytinu til annars ráðuneytis.  Millifyrirsagnir eru LS.

 

Botnfrosinn leigumarkaður

„Leigumarkaðir fyrir
aflamark eru botnfrosnir um þessar mundir og veldur það áhyggjum. Ástæðurnar
eru m.a. þær að aflaheimildir hafa dregist saman í sumum fisktegundum. Ég vil
samt biðja menn að gæta að því, að þessi markaður hefur fram að þessu verið
talinn nauðsynlegur fyrir hagkvæmni fiskveiðistjórnunarinnar og fjölbreytni í
sjávarútvegi og það eru býsna mörg fyrirtæki og jafnvel heilar byggðir sem hafa
reitt sig mjög á þennan leigumarkað. Því bera bæði stjórnvöld og greinin
sameiginlega ábyrgð á því að hann sé virkur og ekki afnuminn í einu vettvangi. Ég
verð að segja það hér, að það er ekki hægt að láta sér vel líka hvernig háttað
virðist verðlagningu á aflamarki þar sem leiguverð eru jafnvel tvö- eða þrefölduð
eins og hendi sé veifað. Ég tel að þarna mætti ríkja meiri ábyrgð og meiri
samkennd. Ég vill geta þess hér að ég hef hafið viðræður við Hagfræðistofnun HÍ
um könnun á því hvort einhverjir markaðsbrestir gætu verið á ferðinni í leigumarkaði
fyrir aflamark. Verði það niðurstaðan mun ég íhuga vel að grípa til aðgerða sem
gætu falið í sér frekari afskipti opinberra aðila að þessum markaði.“

 

Við eigum ekkert erindi í ESB

„Alveg nýlega komu
fulltrúar frá Möltu í heimsókn í ráðuneytið til þess að segja okkur frá reynslu
sinni í aðildarviðræðum og reynslu sinni að aðild. Heimsóknin var mjög gagnleg
og veitti þetta góða fólk frá Möltu okkur greiðlega svör við öllum okkar spurningum.
Malta er níunda þéttbýlasta ríki jarðarinnar og aðstæður þar eru að flestu
leyti ólíkar okkar. Eftir sem áður er Malta eyja í miðju hafi og þar eru
nokkrir hagsmunir í sjávarútvegi þó þeir séu á örskala miðað við okkar.
Maltverjarnir tjáðu okkur að í upphafi aðildarviðræðnanna hefðu þeir farið fram
á að vera undanþegnir ESB-reglunni um jafnan aðgang fiskiskipa. Þeir komust mjög
fljótt að því að á slíku var enginn möguleiki. Þeir sömdu hins vegar um sérstakar
reglur um veiðar innan 25 mílna lögsögu, en þær fela í sér, að þar megi
einungis nota báta styttri en 12 metra og með takmörkuðu vélarafli, sem útilokar
í raun að hægt sé að sækja á þessi mið frá öðrum löndum. Oft hefur verið vitnað
til þessa Möltuákvæðis í umræðunni hér á landi, en þar er þó ólíku saman að
jafna. Möltumenn verja þessa smábátaútgerð á grundvelli þess sem þeir nefna “identity”
og kannski má þýða sem menningarlegt þjóðareinkenni. Þessir bátar veiða árlega á
annað þúsund tonn allir saman, og geta menn af því gert sér í hugarlund hagsmunasamanburðinn.
Ekki veit ég annað en okkar góðu vinum Maltverjum líði vel í ESB og óska ég þeim
alls velfarnaðar í því ágæta bandalagi, en þessi litla saga segir mér að þarna
inn höfum við ekkert að gera. Það er samt ekki svo að hana hafi þurft til þess
hvað mig varðar.“

 

Hafnar alfarið flutningi Hafró frá sjávarútvegsráðuneytinu

„Ég vil hér að lokum í
umfjöllun minni um Hafrannsóknarstofnunina segja að ég hef með öllu hafnað
hugmyndum um að stofnunin, ásamt Veiðimálastofnun, flyttist frá sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðuneytinu til annars ráðuneytis. Hugmyndin er fráleit í alla
staði og ég veit að atvinnugreinin í heild sinni stendur með mér í þessum efnum
og vil ég hér nota tækifærið þakka fyrir stuðning og samstöðu ykkar í þeim
efnum.“

 

Sjá ræðuna í heild.