Aflaráðgjafanefnd sjómanna

 

Á aðalfundi LS var samþykkt að beita sér fyrir stofnun aflaráðgjafanefndar sjómanna.  Hlutverk nefndarinnar yrði að gefa árlega,
samhliða Hafrannsóknastofnuninni, rökstudda ráðgjöf um heildarafla sem byggð
væri á reynsluheimi sjómanna.  

Í greinargerð með
samþykktinni er vakin athygli á að reynsluheimur sjómanna sé þjóðinni
ómetanlegur.   Með
„aflaráðgjafanefnd“ sjómanna yrði til vettvangur um úttekt úr reynslubanka
þeirra hvað viðkemur veiðum,
ástandi einstakra fiskistofna og veiðisvæða, skilyrðum í sjónum og almennt um
lífríkið í hafinu.  

Grunnur
aflaráðgjafanefndar væri þekking og reynsla þeirra sem starfað hafa á miðunum í
áratugi.  

 

Áhersla verður
lögð á nauðsyn þess að nýta fiskistofnana með eins mikilli skynsemi og mögulegt
er.   Þar verði hvorki um
vannýtingu eða ofnýtingu að ræða.  Með
ráðgjöf nefndarinnar verður lagt upp með að gæta samræmis milli tegunda þannig
að hún kalli ekki á brottkast.

 

Ætlunin er að
samhliða upplýsingagjöf sjómanna verði byggður upp gagnagrunnur í samvinnu við
háskólasamfélagið um þá þekkingu og reynslu sem sjómenn afla sér í daglegri
umgengni við fiskistofnana umhverfis landið.   Gagnagrunnurinn mun eflast með árunum og gera nefndina
færari um að meta burðarþol fiskistofnanna.

 

Aðalfundur LS kaus þriggja manna nefnd til að vinna að málefninu.  Í nefndinni eru Arnar Þór Ragnarsson Höfn, Guðmundur Halldórsson Bolungarvík og Þorvaldur Garðarsson Þorlákshöfn. Nefndin hefur sent aðilum í sjávarútvegi bréf þar sem óskað er eftir áliti þeirra á stofnun „aflaráðgjafanefndar“ og hvort þeir séu
reiðubúnir að vera með í undirbúningsvinnu, sem hafi það hlutverk að útfæra
hugmyndir og starfsvið nefndarinnar og í framhaldi að tilnefna menn í hana.


Nú þegar hafa Sjómannasamband Íslands og Félag skipstjórnarmanna tekið jákvætt í stofnun nefndarinnar. 

 

Í lok bréfs
þremenninganna til aðila í sjávarútvegi segir:  „Það er staðföst trú undirritaðra að aðkoma sjómanna með
þessum hætti muni bæta þá ráðgjöf sem nú er gefin og auka traust þjóðarinnar á
að sameiginleg auðlind hennar sé nýtt með ábyrgum hætti með tilliti til
hámarksarðsemi.“.