Lausn á skuldavanda sjávarútvegsins – Innbyrðis samkeppnisstaða raskist ekki


Eftirfarandi gein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 3. desember sl.

Skuldir sjávarútvegsins.pdf
Lausn á skuldavanda smábátamanna (hljóð)

„Frá því að hrunið
varð hefur Landssamband smábátaeigenda (LS)  haft afskipti af tugum smábátaeigenda sem horfðu á skuldir
fyrirtækja sinna vaxa þeim yfir höfuð á örskotsstundu í október 2008.  Stjórnvöld gripu fljótt til þeirra ráða
að bjóða þeim sem þess óskuðu frystingu lána sem voru á forræði yfirteknu
bankanna og beina tilmælum til sparisjóða að gera slíkt hið sama.   Aðgerðin gekk eftir – þeir sem
ekki voru komnir í vandræði fyrir efnahagshrunið gátu staðið við þær
skuldbindingar að greiða vexti af lánunum.

 

Kortlagning vandans

LS ákvað í byrjun
apríl að fara af stað með verkefni meðal smábátaeigenda sem hafði það markmið
að kortleggja stöðu þeirra.  Hversu
háar skuldir voru, á hvaða kjörum lánin voru og freista í kjölfar þessara
upplýsinga að koma með tillögur til úrlausnar.  Vegna ónægrar þátttöku reyndist ekki unnt að meta með
nægilegri nákvæmni hve mikill vandinn væri, en verkefnið gaf fjölmargar
mikilvægar upplýsingar sem unnið hefur verið úr. 

 

Algjör forsendubrestur

Mestur er vandinn
hjá þeim sem eru með erlend lán, sem í langflestum tilvikum voru tekin til að fjármagna
kaup á veiðiheimildum.  Algengast
er að lánin séu í yenum og frönkum, sem hafa hækkað allra mynta mest á
tímabilinu 1. mars 2008 til dagsins í dag.  Yenið um 125% og frankinn um 94%.   Svo gripið sé til geimvísindanna þá þarf ekki kippu af
slíkum snillingum til að sjá að hér hefur orðið algjör forsendubrestur sem
kallar á skilyrðislausa leiðréttingu höfuðstóls.  Hvers vegna það er ekki gert er mér hulin ráðgáta, ekki síst
þegar ljóst er að nýju bankarnir keyptu lánasöfnin af gömlu bönkunum með miklum
afslætti. 

 

Bankarnir bjóða biðleiki

Í ágúst fór að
bera á óþreyju smábátaeigenda um aðgerðir til lausnar vandanum.  Fram til þess tíma gengu frystingar að
mestu snurðulaust fyrir sig, en þá fóru bankarnir að þreifa fyrir sér um aðrar
leiðir.  Allar áttu þessar leiðir
það sameiginlegt að vera biðleikir. 
Afslættir voru boðnir ef aðilar samþykktu að breyta erlendum lánum yfir
í íslensk.  Krafa var um hækkun á
vaxtaálagi erlendu myntanna.  Reynt
var ýta mönnum til undirskriftar þar sem lánastofnun var heimilað að breyta úr
yenum og frönkum í evrur.  Hér er
aðeins um nokkur atriði sem komu upp í sumar og nú í haust.

 

Fundað með bönkunum

Í kjölfar
aðalfundar LS í október var ákveðið að funda með bönkunum í því skyni að fá
upplýsingar um hvað þeir hygðust fyrir varðandi lausnir.  Skemmst er frá því að segja að allir
hafa þeir unnið að því að undirbúa aðgerðir sem miða að því að leysa vandann
með sértækum lausnum.  Á fundunum
hefur komið fram að enn er nokkur tími í að úrræði bankanna verði kynnt.

Á öllum fundunum
kynnti LS sínar hugmyndir að lausn. 
Hún byggist á almennum aðgerðum þar sem LS telur að ekki sé unnt að
leysa skuldavandann með sértækum aðgerðum án þess að staða manna innbyrðis
raskist verulega frá því sem var fyrir hrun.  Það telur LS að megi ekki gerast, leiðrétting verður að vera
almenn aðgerð og ná til allra þeirra sem sáu lán sín margfaldast við hrunið.

 

Tillaga LS

Tillaga LS er
eftirfarandi: 

Greiðslubyrði lána miðist við höfuðstól 1. mars
2008.  Gengismunur sem fallið hefur
á lánið frá 1. mars 2008 flyst yfir í jöfnunarlán í krónum með 15 ára lánstíma,
vaxtalaust og án verðtryggingar. 
Fyrsti gjalddagi þess láns verði 6 mánuðum eftir að lánstíma frumláns
lýkur.

 

LS leggur mikla
áherslu á að skuldamál smábátaeigenda verði leyst í sátt við félagið og leiðin
sem valin verður raski sem minnst því innbyrðist umhverfi sem var áður en
bankar hófu skothríð á krónuna.  
Tillaga LS er þaulhugsuð og byggð á sanngirni þar sem báðir aðilar taka
á sig byrðar hrunsins.  Fallist er
á óskir lánastofnana um að erlend lán verði færð yfir í krónur, auk þess sem
þær hafa mikinn haga af því að höfuðstóll lána verði óbreyttur frá því hann er
í dag.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands
smábátaeigenda.“