Stöndum á miklum tímamótum

Leiðari BRIMFAXA er ritaður af Erni Pálssyni og er eftirfarandi:    

„Smábátaeigendur standa nú á miklum tímamótum.  Skuldir í greininni hafa aldrei verið
jafn miklar og jafn mörgum ofviða. 
Bankakerfið hefur unnið að því að koma fram með úrræði, en því miður
einblínt á sértækar aðgerðir (maður á mann aðferðin) sem leiðir til ójafnvægis
milli  manna.  Þannig verði innbyrðis stöðu raskað sem
ekki er á bætandi ofan á allt annað.  

LS hefur lagt áherslu á að við leiðréttingu lána verði fyrst
beitt almennri aðgerð og ef hún dugar ekki verða sértækar aðgerðir að koma til
á sama grunni og viðgengist hefur hjá lánastofnunum gegnum tíðina.  

Tillaga LS byggist á að afborganir taki mið af höfðustól
láns eins og hann var 1. mars 2008. 
Mismunur á höfðustól nú og þá verði lánaður til 15 ára með fyrstu
afborgun þegar greiðslu frumláns lýkur. 
Lánið verði í krónum, vaxtalaust og án verðtryggingar.

Vaxandi hljómgrunnur er fyrir þessari leið og því mikil þörf
á að félagsmenn þrýsti á stjórnvöld og lánastofnanir um framgang hennar.   Hún mun skila ásættanlegri stöðu
fyrir smábátaeigendur og ekki raska því jafnvægi innan hópsins sem ríkti fyrir
hrun.

 

Frá upphafi smábátaútgerðar hafa trillukarlar ekki upplifað
viðlíka fiskverð og staðið hefur frá því um miðjan ágúst sl.  Meðalverð á þorski á mörkuðunum hefur
verið um 400 kr/kg og ýsan í kringum 300 kr/kg.  Það nægir þó engan vegin til að jafna gríðarlegar
kostnaðarhækkanir, kvótaskerðingar og frosinn leigumarkað, svo ekki sé minnst á
skattahækkanir sem komnar eru til framkvæmda og hafa verið boðaðar.

Fiskútflytjendur hafa nokkrar áhyggjur af þróun fiskverðs á
nýju ári, það geti jafnvel gefið eftir. 
Þá er gengi krónunnar óræð gáta, sérfræðingar boða hana áfram veika,
aðrir fræðingar boða styrkingu og benda á að hún sé nú alltof lágt skráð og því
verði styrking í formi leiðréttingar.

 

Það er tíðrætt á bryggjunni þegar menn koma saman hversu
mikið ósamræmi er í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og aflabrögðum.  Trillukarl í nokkra tugi ára sagði mér
að oft hér áður fyrr hefði kvótaákvörðun ekki komið á óvart, hún hefði verið í
samræmi við aflabrögðin.  Hin
síðari ár hefði þetta gjörsamlega snúist við.  Þorskkvótinn þýddi að ekki væri bein úr sjó að hafa, en það
væri nú aldeilis annað, hann hefði aldrei, og það aldrei, lent í öðrum eins
þorskafla og síðastliðin ár.  
Þarna lægi meinsemdin og með ólíkindum að stjórnvöld tækju ekki tillit
til þekkingu og reynslu sjómanna af ástandinu í hafinu.

 

Strandveiðar voru hressilegt inngrip í stjórnkerfi
fiskveiða.  Þátttaka var meiri en
nokkur hafði búist við og greinilegt að þörf hefur verið á þessari
þrýstingslosun í kerfinu. 
Fylgifiskur strandveiðanna var meiri jákvæðni almennings til
sjávarútvegsins sem mikil þörf var og er á.  Sjávarútvegsráðherra hefur boðað framhald strandveiða á
næsta ári og er frumvarps að vænta eftir áramót.  Ekkert hefur verið gefið út um fyrirkomulag veiðanna.  

Aðalfundur LS lýsti ánægju með strandveiðar og vill að þær
verði festar í sessi, bundnar í lög og að aflamagn verði ákvarðað 800 þorskígildi
í stað kílóa. 

 

Smábátaeigendum,
fjölskyldum þeirra

og velunnurum óska ég
gleðilegra jóla

 og farsældar á komandi ári.

 

Örn Pálsson
framkvæmdastjóri

Landssambands
smábátaeigenda“

 

 

,

Stóri bramafiskur raðar sér á línuna við Suðurland”


Uppskriftir