Skötuselur og línuívilnun – viðbrögð við frumvarpi sjávarútvegsráðherra


Eftirfarandi grein eftir Arnar Ragnarsson birtist í Fiskifréttum 18. febrúar
sl.


„Upphaf skötuselsumræðunnar
varð þegar við trillukarlar fórum að fá

IMG_2-7-83.JPGskötusel í grásleppunetin. Við
brugðumst við með því að fá leigðan til okkar skötusel, en varla vorum við
búnir að leigja til okkar nema nokkur kíló þegar allt þvarr og engan skötusel
var að fá.  Þá áttum við ekki annan
kost en að leita til ráðherra eða hætta tafarlaust grásleppuveiðum. Að hætta
veiðum þótti okkur afleitt, ekki síst vegna þess að við sáum að selurinn lá í
rauðmaganum sem virtist vera hans aðalfæða. Þessum skilaboðum var komið á
framfæri við ráðherra og hann ákvað að heimila mönnum áfram grásleppuveiðar þótt
eitthvað stæði út af vegna skötusels.

 

Ályktun Hrollaugs

Umræðan var nú farin af
stað.  Ályktanir komu um haustið
frá svæðisfélögum Landssambands smábátaeigenda (LS) víðs vegar um

landið.   Smábátafélagið Hrollaugur tók
málið hins vegar ekki upp fyrr en í desember eða þegar fyrir lá frumvarp
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málið.  Ályktun Hrollaugs var eftirfarandi:

„Smábátafélagið Hrollaugur mótmælir „skötuselsfrumvarpinu“ eins og það er
sett fram.   Stjórnin telur frumvarpið illa ígrundað og vanhugsað.
Smábátafélagið Hrollaugur lýsir stuðningi við þá ætlun ráðherra að auka
skötuselskvótann, en skorar á hann að ætla 500 tonn til að mæta meðafla við
grásleppuveiðar og úthluta afganginum með hefðbundnum hætti til þeirra sem hafa
hlutdeild í skötusel.”

 

Mun skapa mikil vandræði

Það er mín skoðun að verði
frumvarpið að lögum muni fjölmargir bátar hefja skötuselsveiðar með tilheyrandi
haug af netum um allan sjó.  Ég er
í engum vafa um að það muni valda miklum vandræðum hjá okkur trillukörlum sem
róa með línu, við munum lenda í vandræðum við að leggja línu. Í dag eru
dæmi um að  skötuselsbátar séu með
0-8-400 net í sjó meðan netabátar á þorskveiðum eru með 0-1-120 net.  Einn skötuselsbátur er því með 4 til 6
sinnum meira af netum í sjó!

 

Bann í Breiðafirði

Þá er það einnig mín
skoðun að smábátamenn yfirhöfuð eigi að berjast fyrir því að
skötuselsveiðar í net í Breiðafirði og Faxaflóa verði bannaðar frá 1. janúar
til 20. maí.  Þar styðst ég við
reynslu af þessu svæði, því ég hræðist það að menn séu að draga þetta 3-6 nátta
bunkað af þorski.  Vafalaust yrði
þorskinum fleygt þar sem hann væri ekki mannamatur eftir þessa legu. Frá 1.
janúar byrjar netavertíð og stendur fram í maí. Þá gengur þorskur á slóðina. Þess
vegna er ég að lýsa þessum áhyggjum.

 

Tillaga að lausn á erfiðu máli

Sem kunnugt er stafar
skötuselsvandinn af því að þessi fisktegund hefur breiðst út til svæða þar sem
hennar hefur ekki orðið vart áður. Þess vegna er engin skötuselskvóti á bátum
sem þar stunda veiðar, svo sem grásleppuveiðar. Mín tillaga er sú að allur meðafli í grásleppunet verði
undanþeginn kvóta og dragnótabátar fái að veiða c.a 1-2% meðafla af skötusel
.
Ég hvet ráðherra og Alþingi til að breyta því frumvarpi sem nú er til umræðu í
þessa veru og sætta þannig andstæð sjónarmið. 

 

Línuívilnun er í þjóðarhag

Fyrir Alþingi liggur nú
tillaga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem felur í sér rýmkun á
línuívilnun. Hún verði aukin úr 16% í 20% og þeir bátar sem stokka upp í landi
og nota beitningatekt fái 15% ívilnun. 
Þetta er af hinu góða en ég tel að gera þurfi enn betur.  Línuívilnun á að ná til allra
dagróðrabáta, þar með taldir beitningarvélabátar. Sanngjörn ívilnun til þeirra
væri á bilinu 7-10%.

Ástæðan er einkum sú að
nauðsynlegt er að viðhalda jafnvægi milli dagróðrabáta sem róa með línu. Hætt
er við að hækkun línuívilnunar í 20% geti orðið til að fleiri kjósi að beita í
landi, einkum vélabátar sem eru afar afkastamiklir.  Það mundi fljótt rýra hlut þeirra sem fengið hafa
línuívilnun. Önnur ástæða sem ég vil nefna er að með þessu mundi tiltrú aðila
aukast enn meira á fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem inni í því væri lögbundin
hvatning til þess að auka vægi umhverfisvænna veiða með áherslu á ferskleika
hráefnisins.

 

Ég skal fúslega viðurkenna
að það á að vera hærri ívilnun á landbeitta línu enda mörg störf í húfi, t.d. á
Vestfjörðum og Snæfellsnesi þar sem stærstu vinnustaðirnir eru gjarnan tengdir
línubeitningu.“

 


Höfundur er formaður
smábátafélagsins Hrollaugs á Hornafirði og í stjórn LS.