Uppsagnir blasa við – sjávarútvegsráðherra á næsta leik


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 4. mars sl.

„Það er mér nýtt sem framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda að spurt
sé um réttindi sjómanna hvað varðar uppsagnir. Spurt er hvaða reglur gildi. Þar
er réttur sjómanna misjafn eftir því hversu lengi þeir hafa starfað hjá sömu útgerð,
eftir því hvaða ráðningakjör eru í gangi og svo framvegis.

Öllum sem spyrja um þessi atriði er það þungbært að þurfa í raun að spá í þessar
reglur. Áhöfnin sem mest telur fjóra er sem einn maður og hefur í flestum tilvikum
unnið lengi saman. Gengur samhent til starfa sem ein heild frá því lagt er úr höfn
og þar til búið er að binda og ganga frá.

Spurt er: Hvað heldurðu að ráðherrann geri þegar tugir báta verða bundnir
við bryggju, hundruð fiskverkafólks missir atvinnuna og kaupendur sem skipt
hafa við viðkomandi í fjölda mörg ár fá ekki lengur hinn frábæra fisk? Hvað
eiga þeir að segja viðskiptavinum sínum? 

 

Nóg er af þorskinum

Fiskverkafólkið á erfitt með að trúa því að nú sé löndun brátt lokið. Veiðiheimildir
sem sparaðar hafa verið frá upphafi fiskveiðiársins nánast uppurnar. Leigumarkaðurinn
botnfrosinn og því verði bátnum lagt innan skamms. Atburðarrásin á sér stað í
umhverfi þar sem sjómenn segja að aldrei hafi verið jafn auðvelt að veiða þorsk
og nú. Fiskverkafólkið segir að fiskurinn hafi aldrei verið jafn vel
haldinn. 

Því er ekki nema von að sá sem rýnir á uppsagnabréfið spyrji sig: Ég trúi
ekki öðru en að ráðherra bæti við veiðiheimildir í þorski. Það er engin áhætta
tekin, nóg er af þorskinum.

Endurtekið: Hvað heldurðu að ráðherrann geri til að koma í veg fyrir að þessi
staða komi upp?

 

Rökin fyrir auknum þorskkvóta

Svar mitt er: Miðað við stöðuna sem nú er uppi á ráðherrann að auka veiðiheimildir
í þorski. Þótt hann bæti við 40 þúsund tonnum mun það ekki kollvarpa því markmiði
að stækka veiðistofninn. Með því yrði vöxturinn ekki eins hraður, en uppbygging
engu að síður eins og lesa má út úr gögnum Hafrannsóknastofnunarinnar.
  Það gæti þó allt eins breyst til betri vegar þar sem töluverðar
líkur eru á að Hafrannsóknastofnun vanmeti þorskgöngur frá Grænlandi sem hafa
verið viðvarandi frá 2007 og farið hafa vaxandi að sögn sjómanna.

Fjölmörg önnur rök fyrir ákvörðun um aukinn þorskkvóta er hægt að nefna:
Aflabrögð með eindæmum góð, verð á fiski í sögulegu hámarki, staða þjóðarbúsins
aldrei verri, atvinnuleysi það hæsta sem sögur fara af, skyndilokanir vegna smáfisks
aldrei fleiri, ágreiningur sjómanna og fiskifræðinga um hversu mikið má veiða
af þorski gríðarlegur, elstu menn muna ekki eftir að svo mikið beri á milli sjónarmiða
þessara aðila.

 

Ráðherrann hefur valdið

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur valdið.  Hann ræður hversu mikið skal veitt af þorski
og öðrum tegundum sem veiði er takmörkuð á.  Ráðherrann veit að fiskifræðin er ung vísindagrein og mikil óvissa
er í mati fiskifræðinga á stærð fiskistofnanna.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur fengið fjölmargar
brýningar um að auka þorskkvótann. Hann hefur fengið skilaboð um að fyrirtæki
eigi ekki um annan kost að velja en að loka og senda starfsfólkið heim verði kvótinn
ekki aukinn.

Undir þeim kringumstæðum sem hér hefur verið lýst er afar mikilvægt að ráðherra
bregðist við og meti að verðleikum þekkingu sjómanna, þeirra sem eiga allt sitt
undir því að ganga varlega um auðlindina. Þeirra álit er skýrt, þorskstofninn þolir
meiri veiði en Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. Undir þau sjónarmið tók stjórn
Landssambands smábátaeigenda á fundi 18. febrúar sl. þegar sú alvarlega staða
sem upp er komin var rædd.

Samþykkt var að skora „á stjórnvöld að auka nú þegar verulega við veiðiheimildir
í þorski, ýsu og öðrum helstu nytjastofnum bolfiska.  Veiðimenn hringinn í kringum landið verða varir við miklu
meiri fiskgengd en skýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar gefa til kynna.“.  

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þú átt næsta leik.“

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.