LS mótmælir harðlega frumvarpi samgönguráðherra um lögskráningu

Enn eina ferðina fjallar alþingi um breytingar á lögum um
lögskráningu.  Samgönguráðherra
leggur nú frumvarpið fram öðru sinni. 
Við gerð þess var ekki haft samráð við LS, þrátt fyrir að meginefni þess
sé að skylda félagsmenn LS til lögskráningar.  Þá vekur það eftirtekt að ekki er einu orði minnst á það í frumvarpinu
í hvers konar skrifræði er stefnt með því að fjölga fiskiskipum í lögskráningu um
900 – 1000 sem bætast við þau 380 sem nú falla undir lögskráningu.   

Staða frumvarpsins er sú að annarri umræðu um það er lokið en
atkvæðagreiðslu var frestað. 

 

Landssamband smábátaeigenda hefur á öllum stigum umræðunnar
mótmælt því harðlega að lögskráning verði látin ná til allra báta.   LS telur lögskráningu vera úrelt
fyrirbrigði en hefur á engum stigum málsins krafist þess að lögunum verði breytt
þannig að lögskráning verði afnumin. 
Önnur hagsmunasamtök í sjávarútvegi hafa hins vegar sótt það afar stíft
í áratugi að skylt verði að lögskrá á öll skip óháð stærð þeirra en ekki aðeins
á skip 20 brt. og stærri. 

 

Sjónarmið LS hefur verið virt af meiri hluta alþingismanna allt
til þeirrar umræðu sem nú fer fram á Alþingi.   Meiri hluti samgöngunefndar hefur ekki orðið við
tilmælum LS um að útgerðir báta minni en 20 brt. hafi eins og nú er val um það
hvort þeir lögskrái eða uppfylli skilyrði um slysatryggingu í haffærisskírteini.

Verði engar breytingar gerðar í samgöngunefnd milli annarrar
og þriðju umræðu verður öllum smábátaeigendum skylt að lögskrá.

 

Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér umsögn LS um frumvarpið auk umsagnar félagsins um breytingar á lögum um eftirlit
með skipum sem hér fylgir.  Ræða
við þingmenn og óska þess að frumvarpinu verði breytt þannig að lögskráning nái
ekki til smábáta.

Umsögn LS – lögskráning.pdf

Umsögn br. á L.m.e-lit m. skipum.pdf

 

Sjá einnig álit minni hluta samgöngunefndar.pdf sem er skýrt og
skorinort og tekur að öllu leyti undir sjónarmið LS.

 

Álit meiri hluta samgöngunefndar.pdf.