Stjórn LS – mælingar Hafró á grunnslóð ómarktækar


Stjórnarfundur
Landssambands smábátaeigenda 19. apríl 2010 ályktar eftirfarandi um niðurstöður
togararalls Hafrannsóknastofnunarinnar í mars sl:

 

Hafró – ástand þorskstofna lélegt

Enn
eina ferðina tilkynnir Hafrannsóknastofnunin um lélegt ástand þorskstofna sem og
fleiri nytjastofna við landið.  Samkvæmt niðurstöðum togararallsins í
marsmánuði eru íslenskir þorskstofnar enn nálægt sögulegum lágmörkum, þrátt
fyrir þveröfuga reynslu þeirra fiskimanna sem daglega erja fiskimiðin hringinn
í kring um landið.  

 

Myndin
hér að neðan sýnir útbreiðslu þorsks samkvæmt síðasta togararalli.  

Mokafli á svæðum þar sem ekkert mælist

Stjórn
LS vekur athygli á því að samkvæmt myndinni er þéttleiki íslenskra þorskstofna
mestur við útjaðra þess svæðis sem „mælingin/rallið“ nær til.  Engu er
líkara en þar syndi hann upp að girðingum og enginn fiskur hinum megin.

Þá
er, samkvæmt myndinni, þéttleiki og þar með magn þorsks innan 12 mílna
hverfandi.  Sú mynd er herfileg þversögn við það sem veiðimenn upplifa á
miðunum.  Nánast allir smábátar og fjölmörg önnur skip sækja stutt frá
ströndinni og á stórum svæðum hafa viðkomandi upplifað fiskgengd sem er
órafjarri því fiskleysi sem myndin gefur til kynna.  

 

Togararallið ónýtt til að mæla fisk á
grunnslóð

Ástæðan
er einföld.  Togararallið er og hefur alltaf verið ónýtt til að mæla fisk
á grunnslóð.  Svo dæmi sé tekið hafa veiðimenn við Breiðafjörð lýst meiri
fiskgengd undanfarin tvö ár en til áratuga.  Þessa sér engan stað á myndum
Hafrannsóknastofnunarinnar.  Eftir því sem nær degur landi verða
hringirnir á myndinni minni.  Samkvæmt henni er sáralítill þorskur innan 12
mílna lögsögunnar.  Þar var á stórum svæðum mokveiði á sama tíma og togararallið fór fram í mars sl.  Og er enn.

 

LS ítrekar áskorun um 200 þús. tonna
þorskafla

Stjórn
LS er eindregið þeirrar skoðunar að ástand þorskstofna við landið sé allt annað
og mun betra en Hafrannsóknastofnunin vill vera láta.  Undanfarin ár hefur
LS hvatt til þess að stjórnvöld ákveði jafnstöðuafla í þorski upp á u.þ.b. 200
þúsund tonn til nokkurra ára og telur að þá sé mikillar varúðar gætt.

 

LS
ítrekar þessa áskorun sína til stjórnvalda.  Það er að mati stjórnar LS
eitthvað mikið að vísindarannsóknum sem árum saman stangast gjörsamlega á við
reynslu þeirra sem daglega eru að störfum á sama vettvangi.

 

 

Stjórn Landssambands
smábátaeigenda