Ákall úr Njarðvík

Fyrir fáeinum dögum birtist í Morgunblaðinu eftirfarandi grein eftir Sæmund Einarsson, smábátasjómann úr Njarðvík:

„Reykjanes, félag smábátaeigenda á Suðurnesjum, hefur samþykkt tillögu um
að fara þess á leit við sjávarútvegsráðuneytið að banna togveiðar á viðkvæmu
hrygningarsvæði þorsks norðvestur af Sandgerði. 

Þessum tilmælum hefur verið beint til
ráðuneytisins í yfir tuttugu ár án árangurs.

Í sjávarútvegsráðuneytinu hafa eftirtaldir ráðherrar
gegnt störfum á þessum tíma: Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson, Árni
Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson, Steingrímur J. Sigfússon og nú Jón Bjarnason.  Menn bíða eftir viðbrögðum frá honum og
hans ráðuneyti, því þetta er fyrst og fremst stjórnvaldsaðgerð sem á alltaf og
undir öllum kringumstæðum að gæta hagsmuna almennings frekar en þröngra
sérhagsmuna.  Þegar talað er um
fiskimið almennt séð þá eru þau þekkt fyrir aflasæld, oft tímabundið, því
þangað safnast fiskur af ýmsum tegundum. Fiskimiðin má skilgreina í þekkt
hrygningarsvæði, heimkynni eða ætissvæði, þar sem ein tegund étur aðra.  Nýting þekktra fiskimiða utan strönd
Suðurnesja er aðallega vegna vertíða sem miðast við fiskgengd í miklum mæli,
stofna sem ganga upp á grunnið til hrygningar. Hápunktur þessa ferils er
skammur, því í lok júní er fiskurinn að mestu farinn af grunninu ár hvert.  1. maí í ár voru taldir 19 togarar sem
skófu þetta umdeilda hólf með leyfi stjórnvalda, slóðin þurrkuð upp og þar með
töpuðust mörg störf á sjó og í landi tengd fiskvinnslu og útgerð.  

„Dauður þorskur er dauður þorskur, sama
hvernig hann er veiddur“, sagði mætur maður.  En það eru sem betur fer ekki allir sammála honum því
viðkvæmri slóð þarf að hlífa fyrir ágangi dreginna veiðarfæra og nýta, en um
leið vernda til þess að fiskurinn komi aftur á hrygningarslóðina til að hlýða
kalli náttúrunnar.  Það hlýtur að
vera markmið stjórnvalda í sjálfu sér að líta á það sem skyldu sína að góð
hrygningarsvæði séu til staðar til þess að tegundin hafi löngun eða getu til að
athafna sig í æxlunarferli sínu.  Hafró
gerir rannsóknir um ástand fiskistofna og gefur út veiðiþol hverrar tegundar út
frá þeirri athugun í tonnum talið, ásamt því að loka svæðum vegna smáfisks í
afla.  

Stjórnvöld hafa með stærð skipastólsins að gera og þar
með hvaða veiðarfærum er beitt á hverjum stað.  Óskir Reykjaness um bann við veiðum togara á þessu umdeilda
svæði eru á rökum reistar.  Því
hvet ég sjávarútvegsráðherra fyrir hönd stjórnvalda að koma að þessu máli, því
þegar sjónarmið hagsmunaaðila eru skoðuð vandlega þá sjá menn að hagsmunir
liggja saman.  Hver vill ekki
stuðla að meiri afla í framtíðinni ef þess er nokkur kostur í stað þess að láta
stundargróða ráða för?“


seamundur.png 

Sæmundur Einarsson