Gullkistan sem var


Í sjómannadagsblaði Fiskifrétta birtist eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason, formann Landssambands smábátaeigenda, undir fyrirsögninni „Den Tid, Den Tid“:

Þegar við rennum eftir
malbikinu út Álftanesið vita fæst okkar að á síðari hluta 19. aldar voru um 70
bátar, frá áttæringum og niður úr, gerðir þaðan út.  Yfir vertíðina fjölgaði um 200 manns í Bessastaðahreppnum,
aðkomumenn úr öllum landshornum.

Nú er búðin stekkur. Í dag er
enginn bátur gerður þaðan út og Bessastaðabóndinn og skuldsettasta
vatnsrennibraut landsins orðin helstu kennileitin. 

Kærar þakkir

Mér finnst við hæfi, fyrst mér
er boðið að fylla þetta rými Fiskifrétta í sjálfu sjómannadagsblaðinu að láta dægurþrasið
að mestu eiga sig. Ég vil þó nota tækifærið og þakka forseta Farmanna- og
fiskimannasambandsins sérstaklega fyrir frábæra ritröð um ágæti
smábátaútgerðarinnar. Nú til dags er afar sjaldgæft að sjá jafn nákvæmlega
farið með staðreyndir og tölulegar upplýsingar. Það er gott að vita af slíkum
hauk í horni.

Sjómannadagurinn vekur
yfirleitt með mér vangaveltur um þær breytingar sem átt hafa sér stað í
starfsumhverfi sjómanna við Íslandsstrendur.  Það eru ekki nema 120 – 130 ár síðan sjómenn klæddust
lýsisvættum skinnfötum, þurftu árla dags að bera bátana af kambi og út í sjó og
algengt var að beita ræksni, með tilheyrandi veseni.  Ræksni er innyfli hrognkelsa. Hrogn grásleppunnar voru þannig
notuð til beitu og athyglisverð gáta fyrir tölvuvædda skakkarla nútímans að
ráða í hvernig forfeður þeirra fengu þau til að loða við öngul.

Dásamleg bók

Ég hef til margra ára
skipulagt skrifborðið mitt samkvæmt DÚA kerfinu (Drasl Útum Allt). Reyndar geng
ég að flestu vísu, en einu alveg örugglega.  Það er bók sem ég teygi mig í, ef drungi sækir að. Hún
heitir Sjósókn og er skráning Jóns Thorarensen á endurminningum Erlends
Björnssonar á Breiðabólsstöðum í Bessastaðahreppi, gefin út 1945. Þessi bók
kætir ætíð mína lund. Hún er ekki bara troðfull af ómetanlegum fróðleik um
lifnaðarhætti fólks og lygilegar vinnuaðstæður þess fyrir ekki svo löngu.

Undirliggjandi er hárfín kímni
í útlistun á mannlífi og einstaklingum.

Þar er t.d. að finna lýsingu á
Gottsveini Jónssyni sem bjó í Kasthúsum.

Hann hafði þann sið, eða ósið
myndi sjálfsagt einhver tepran segja, að ganga iðulega með flatningssax í
munninum, sem hann hafði brugðið á milli tanna sér og þriggja álna járnstöng
sem hann hafði í báðum höndum þversum fyrir sér. Það var eftir öðru að
krakkakvikindin á svæðinu voru skíthrædd við hann. Hugsanlega kann þessi hegðun
a.m.k. að hluta til að skýra hvers vegna hann var alla ævi einsetumaður.

Svo hagaði til í Kasthúsum að
rúm Gottsveins stóð öðrum megin við baðstofugluggann en hinum megin voru kýrnar
hans tvær og sneru þær rössum að herra sínum og rúmi hans.

Þá reglu hafði Gottsveinn að
moka undan kúnum út um baðstofugluggann.

Hlunnindi Bessastaða og Breiðabólsstaða

Á 19. öld hafði engu verið
raskað við Bessastaðatjörn né Dugguós. Í ósnum var mikil kolaveiði og hún talin
mikil hlunnindi fyrir Bessa- og Breiðabólsstaði. Það er athyglisvert hvað
Erlendur Björnsson, fæddur 1865, segir um þróun kolaveiðinnar.
Hann mundi þessa
kolaveiði frá því hann var kornungur. 
Síðan segir orðrétt og gefið út í bók 40 árum áður en Landssamband
smábátaeigenda var stofnað (þangað sem fjörulallar nútímans með dragnót eða
troll í eftirdragi rekja alla sína ógæfu):

„Árið eftir að
fyrstu togararnir komu hér í Faxaflóa, hurfu þessi dýrmætu hlunnindi frá þessum
tveim jörðum og verður sá skaði alltaf ómetanlegur“.

Róður árið 1890.  Að beita sig niður

Ein af frásögnum Erlends
er með ólíkindum. Þar segir frá róðri sem hann fór í árið 1890 á sexæringi við
þriðja mann í blíðskaparveðri vestur á Svið, nánar til tekið í Fláskarðið
vestur af Marflónni. Þar lögðust þeir félagar við stjóra. Eftir að hafa dregið
sjóðvitlausan þyrskling þar til beituna þvarr urðu góð ráð dýr. Enn var
stafalogn, heiðríkja og skammt liðið dags.

Erlendur gerði þá leit í
bátnum og fann stóran öngul með blýsíld á leggnum.

Hann flakaði
þyrskling og „beitti sig niður“ til að reyna við lúðu. Að „beita sig niður“
fólst í því að sitja sem lægst í bátnum og láta hægri handlegginn (væri
viðkomandi rétthendur) liggja út fyrir borðstokkinn og hafa færið kyrrt í
hendinni.

Skemmst er frá
því að segja að Erlendur dró tuttugu og tvær „flakandi lúður“ (á bilinu 50 –
155 kg) þennan dag.  Aðeins liðu
fjórtán klukkutímar frá því þeir héldu í róðurinn og þar til þeir komu að. Ástæða
þess að þeir héldu til lands var ekki sú að tekið hefði undan. Síður en svo,
lúðan virtist jafnör og í upphafi, en það var komin lognhleðsla á bátinn.

Í lok kaflans þar
sem þessum róðri er lýst er haft eftir Erlendi:

„Þessi róður minn
út á Sviðið….er gott dæmi þess hvílík gullkista það var, áður en
botnvörpuveiðar og lúðuskip frá Ameríku hófu rányrkju sína hér í flóanum’.

Það hefur sem sé
ekki vantað bullið og rausið í skakarana þá frekar en nú.

Sjómönnum óska ég til
hamingju með daginn.
,


sjomadurinn.jpg