Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum í dag 23. september.
Í lok árs 2007 gengu samninganefndir Landssambands
smábátaeigenda (LS), Sjómannasambands Íslands, Félag vélstjóra og
málmtæknimanna og Félag skipstjórnarmanna frá kjarasamningi um kjör sjómanna á
smábátum. Það vinnuplagg sem undangengnar viðræður byggðust á var kjarasamningur
sjómanna og útvegsmanna, enda ekki ætlun LS að finna upp hjólið í þessu
málefni. Kjarasamningurinn var afrakstur viðræðna milli félaganna þar sem öllum
flötum um málefnið var velt upp, tekist á um það sem ágreiningur var um og rætt
til hlítar. Þegar félögin voru sammála um að málum yrði ekki þokað nær
sjónarmiðum hvers annars settu aðilar stafi sína undir samninginn því til
staðfestingar að þeir myndu greina umbjóðendum sínum frá viðræðunum, efni
samningsins og mæla með því að hann yrði samþykktur.
Svæðisfélögin fella
samninginn
Af hálfu landssambandsins var það gert, fundað var í
öllum svæðisfélögum sambandsins, 15 talsins. Skemmst er frá því að segja að
ekkert félaganna samþykkti samninginn. Skilaboðin voru skýr, samninganefnd LS
var bent á með skýrum hætt að óska eftir nýjum viðræðum og freista þess að
lagfæra nokkur atriði samningsins.
Viðsemjendum var nú ritað bréf og tilkynnt um afstöðu
svæðisfélaganna og óskað eftir áframhaldandi viðræðum. Viðbrögð voru dræm og
því annað bréf sent þar sem LS ítrekaði óskir sínar um fund með samtökunum um
gerð kjarasamnings milli smábátaeigenda og launþega á smábátum.
Svar
Sjómannasambandsins
VM svaraði bréfinu fljótt og kvaðst reiðubúið til
áframhaldandi viðræðna.
Skipstjórafélag Íslands svaraði bréfinu aldrei, en svar
Sjómannasambandsins barst nokkrum mánuðum síðar þar sem sagði m.a.
eftirfarandi:
„Eftir að
ljóst var í byrjun árs 2008, að samningurinn sem við undirrituðum í desember
2007 hafði verið felldur af ykkur alls staðar á landinu var rætt innan sambandsins
hvernig best væri að bregðast við þeirri stöðu sem þá var komin upp. Í ljósi
vinnulöggjafarinnar varð niðurstaðan sú að við lítum svo á að kjarasamningurinn
milli SSÍ og LÍÚ sé lágmarkssamningur fyrir alla sjómenn hvort sem útgerð
skipanna á aðild að LÍÚ eða ekki, enda engir aðrir samningar til fyrir sjómenn
á fiskiskipum. Í síðasta samningi
sem gerður var við LÍÚ voru samningarnir lagfærðir til að geta þjónað því
hlutverki að vera lágmarkssamningur fyrir alla sjómenn. Samkvæmt framansögðu lítum við svo á að
í gildi séu samningar um lágmarkskjör fyrir sjómenn á smábátum.“
Undarleg afstaða
Með þessu var Sjómannasambandið í raun og veru að
tilkynna LS að það liti ekki á félagið lengur sem samningsaðila um kaup og kjör
sjómanna á smábátum, þar væri LÍÚ réttur aðili. Þessi afstaða vakti að sjálfsögðu
undrun forystu LS þar sem SSÍ hafði með áðurnefndum viðræðum við LS viðurkennt
að það væri hinn rétti samningsaðili. Vinnubrögðin dæma sig sjálf, ekki fleiri
orð um það.
Það kom því undirrituðum verulega á óvart þegar formaður
SSÍ lýsti því yfir á fundi Starfshóps um endurskoðun á lögum um fiskveiðistjórn
(Sáttanefndin) hinn 2. september sl. að LS vildi hafa starfsmenn sína
samningslausa, vilji ekki gera við þá kjarasamning, að ekki sé hægt að semja
við LS, þeir komi í veg fyrir kjarasamning!
LS ávallt reiðubúið
Ferill málsins sem hér hefur verið rakinn sýnir glöggt að
enginn fótur er fyrir slíku. LS hefur á öllum stigum málsins verið tilbúið til
viðræðna um gerð kjarasamnings og er það enn.
Sú staða sem nú er komin upp hefur orðið tilefni til
umhugsunar sem leitt hefur til þeirrar niðurstöðu að samninganefnd LS mun á
næstu dögum koma saman til fundar í því skyni að fjalla um lágmarkskjör sem í
boði eru á smábátum og í kjölfarið kynna þau fyrir félagsmönnum.
Höfundur er
framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
,