Enn einn „glaðningurinn“ frá bankanum


Það var ekki gleði yfir trillukarlinum sem
hafði samband við skrifstofuna fyrr í dag.  Hann hafði fengið bréf frá Landsbankanum þar sem tilkynnt er
tugaprósenta hækkun á vaxtaálagi. 

 

Orðrétt segir í bréfi bankans:

„Í ljósi breyttra aðstæðna og hækkaðs fjármagnskostnaðar
hefur NBI hf ákveðið að nýta sér heimild samkvæmt grein 3.5. í lánasamningnum
og hækka vaxtaálag ofangreinds lánasamnings í 3,50% álag á Libor, eins og nánar
er skilgreint í lánasamningnum. 
Hækkunin tekur gildi frá og með næsta gjalddaga.“

 

„Er þetta aðferðin sem bankinn ætlar að nota
til að aðstoða fyrirtæki í smábátaútgerð, að hegða sér eins og skepna?“, sagði
viðmælandinn.  Nokkur fleiri orð
féllu af vörum þessa manns, sem ganga öll lengra en það sem hér er vitnað í.   Hann var bæði sár og reiður útí
bankann sinn sem hann hefur verið í viðskiptum við í tæp 40 ár.

 

Landssamband smábátaeigenda tekur heilshugar
undir með umræddum smábátaeigenda og mótmælir harðlega ákvörðun Landsbankans um
hækkun vaxtaálags. 

 

Í tölum er hér um að ræða 45,8% hækkun vaxtaálagsins.  Sé tekið mið af 100 milljón króna láni
hækkar afborgun lánsins um 1,1 milljón á ári.