Í morgun hófst 26. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda. Á annað hundrað manns voru við setningu fundarins. Arthur Bogason, formaður flutti eftirfarandi ræðu við setninguna:
„Ágætu fundarmenn hæstvirtur sjávarútvegsráðherra og aðrir sem kunna að heyra mál mitt.
Það eru senn liðin 25 ár frá stofnun Landssambands smábátaeigenda.
Af því tilefni langar mig til að haga máli mínu með öðrum hætti en ég hef iðulega gert.
Ég gæti hér hæglega eytt tíma mínum í að fjalla um samningaleið og fyrningaleið, „Sáttanefndina“ og ósáttina í þjóðfélaginu og enn auðveldara væri að skammast útí Hafró sem að minni hyggju hefur til margra ára haft tugi milljarða af þjóðarbúinu í tekjur með kolrangri aflaráðgjöf, stjórnvöld sem hafa verið allt of gæf við þessa sömu stofnun, skriffinnskubáknið sem meðal annars gerir sér til dundurs að framleiða rafrænar afladagbækur sem eru flóknari en svo að nokkur heilvita maður fái þar botn í og fjölmiðla sem hafa mun meiri áhuga á því sem neikvætt er sagt um sjávarútveginn en það sem vel er gert.
Í dag langar til að tala við ykkur um annað.
Mig langar að tala við ykkur um félagið okkar, hvaðan við komum, hvaða vegferð við hófum, hvar við stöndum og hvert við stefnum.
Þetta félag var stofnað utanum frelsisþrá. Það var stofnað á þeirri bjargföstu sannfæringu að í smábátaútgerðinni fælust lausnir og fögur nálgun á samskiptum manns og náttúru, samskiptum sem viðhalda virðingu fyrir öflum náttúrunnar og takmörkum mannsins.
Félagið var stofnað um þá bjargföstu sannfæringu að veiðar smábáta með kyrrstæð veiðarfæri myndu aldrei skaða nokkurn fiskistofn eða umhverfið í hafinu yfirleitt, væru atvinnuskapandi og byggðavæn, aðferð hinna litlu sjávarbyggða til tengingar við aðlæg fiskimið ásamt því að dreifa áhættunni – hafa mörg egg í körfunni.
Félagið var stofnað um þá staðreynd að smábáturinn sinnir mannlegum þáttum: hann er uppeldisstöð hins unga manns, tækifæri fyrir duglega menn og afdrep þeirra sem hafa jafnvel unnið allan sinn starfsaldur á sjó og hugnast ekkert annað en nærvera við hafið, þegar árin færast yfir.
Í sem stystu máli: smábátaútgerðin sameinar þekkingu kynslóðanna og forna aðferðafræði við tækniframfarir nútímans.
Þó 25 ár séu ekki ýkja langur tími er vegferðin orðin furðu löng. Það hefur sannarlega á ýmsu gengið og nógu löng er hún til þess að í dag eru margir í smábátaútgerðinni sem eru ókunnugir baráttu félagsins að mestu og jafnvel öllu leiti. Það eru margir sem gera sér ekki grein fyrir því að þegar félagið hóf göngu sína voru veiðiheimildir smábátaflotans mjög áþekkar því sem á yfirstandandi ári var úthlutað í strandveiðarnar, jafnvel minni miðað við bátafjölda og mun minni í hlutfalli við leyfilegan heildarafla.
Þeir sem þá véluðu um lög og reglur höfðu greinilega ekki sömu sýn á smábátaútgerðina og ég var hér að telja upp. Svo hastarlegar voru þær hömlur sem átti að setja á hana í byrjun, að engu var líkara en að meint alvarlegt ástand fiskistofnanna ætti fyrst of fremst þangað rætur sínar að rekja.
Trillukarlar voru gæfusamir. Þeir sameinuðust um það sem þeir voru sammála um og lögðu ágreiningsmálin til hliðar. Þessi gæfusemi sannaði það sem sagan kennir aftur og aftur: samstaðan er beittasta vopnið.
Félagið hefur tekið ótal glímur við Alþingi, ráðherra og önnur hagsmunasamtök. Sum þessara átaka voru hatrömm og jafnvel mannskemmandi. En hægt og bítandi ávannst í baráttunni og í dag er smábátaflotinn að veiða margfalt meira en honum var skammtað sem ati úr hnefa á árdögum kvótakerfisins.
Hvort réttlátlega hafi alltaf verið gefið er önnur saga. Ég held að óhætt sé að segja, að þegar tekið skal við að deila út réttlætinu kemst ranglætið í essið sitt.
Við höfum gert mistök í gegnum tíðina og áreiðanlega hefðum við á tíðum getað gert betur. Og við munum halda áfram að gera mistök. Það er lífsins saga. En það er auðvelt að vera vitur eftirá.
Og við höfum á stundum þurft að lúta í lægra haldi. Það hefur undantekningalaust gerst þegar raðir okkra sjálfra hafa riðlast. Því miður, þá hafa átök þessarar vegferðar ekki alltaf verið við utanaðkomandi aðila.
Slíkt hefur gerst, er að gerast og mun gerast í framtíðinni.
Þetta þarf engan að undra: Í gegnum tíðina höfum við verið barðir sundur og saman með kvótasetningum, dagatakmörkunum og boðum og bönnum, jafnvel umfram hugmyndaflug frjóustu manna. Utanaðkomandi öfl hafa margsinnis reynt að splundra félaginu okkar eða ala á sundrung.
Á sama tíma hefur samt félaginu okkar auðnast að margfalda veiðirétt smábátaflotans. Og á sama tíma varð tæknibylting í smíði lítilla báta sem og á sviði öryggismála og í meðhöndlun afla. Í dag hikum við ekki við að segja að ef rétt er gengið um aflann um borð í smábátunum er þar um að ræða besta hráefni sem völ er á. Það sýnir sig best í eftirspurn erlendra kaupenda. Krafan um fisk, veiddan með umhverfisvænum veiðarfærum fer sívaxandi og það sem meira er, þessir sömu kaupendur líta í auknum mæli til annarra þátta svo sem þess félagslega og byggðatengda. Smábátaútgerðin fullnægir þessum kröfum í nánast öllum tilfellum.
Eðlileg afleiðing þessa var og er að hlutverk smábátaútgerðarinnar í þjóðlífi og þjóðarbúskap hefur margfaldast. Í dag gegnir hún mikilvægara hlutverki í tekjuöflun og atvinnulífi þjóðarinnar en nokkru sinni. Hafi einhverntíma verið ástæða til þess fyrir félagið að vera stolt af þeirri staðreynd er það nú, þegar þjóðarbúið glímir við erfiðleika af stærðargráðu sem engan óraði fyrir að myndu nokkru sinni henda það.
Allt þetta á rót sína að rekja til þess að frelsisþráin rak okkur áfram. Þráin til að vera ekki undir oki hafta og banna sem ekkert höfðu með vernd fiskistofna eða umhverfisins í hafinu að gera.
En hefur okkur auðnast að viðhalda þessari frelsisþrá og sannfæringu, eða glötuðum við þessum dýrmætum einhversstaðar á vegferðinni?
Enn þann dag í dag er þessu auðsvarað. Félagið sýnir með ályktunum sínum og málflutningi að hvorki stjórnvöldum né öðrum hagsmunasamtökum hefur tekist að pakka því ofaní kassa einlitrar sérhyggju og sérhlífni. Enn þann dag í dag, aldarfjórðungi eftir stofnun félagsins og hafandi glímt lengst af við stjórnvöld sem hafa viljað troða smábátaflotanum í skjóðu hinnar ferhyrndu hugsunar, enduróma ályktanir svæðifélaga Landssambands smábátaeigenda þrána til frelsis: Frjálsar handfæraveiðar, strandveiðar, frjálsar ufsaveiðar, línuívilnun, langa, keila og skötuselur sem meðafli, grásleppuveiðar utan kvóta: allt eru þetta þess rækileg merki.
Á sama tíma og félaginu ber sjálfsögð skylda til að vernda þá hagsmuni sem áunnist hafa hefur það borið gæfu til að líta sér ekki eingöngu nær. Þetta er kjarninn í gæfu félagsins okkar.
Ágætu félagar!
Í dag er mikið umrót í samfélaginu okkar. Reiði, heift, örvænting og sundrung markar umræðuna. Það síðastnefnda hefur teigt sig inní félagið okkar. Fámennur hópur manna telur málum sínum betur borgið utan LS og halda því jafnvel fram að félagið hafi ætíð unnið gegn þeim – eins smekklega og það var orðað. Miklar veiðiheimildir þessara aðila eru til komnar vegna baráttu félagsins okkar. En hver og einn velur sér aðferð til að þakka fyrir sig.
Sem við erum hér samankomnir er smábátaflotinn öflugri en nokkru sinni fyrr. Við hafa bæst svokallaðar strandveiðar og á skömmum tíma hefur smábátaflotinn stækkað á ný og telur nú yfir 1000 báta. 1000 smábátar á 6000 km strandlengju er engin ofrausn.
Hagsmunir félagsmanna eru vissulega mismunandi og skarast á tíðum.
Það breytir í engu þeirri staðreynd að lykillinn að gæfusamri vegferð er samstaðan. Orðið er okkar sverð. Samstaðan aðferðin til að beita því.
Ágætu félagsmenn: Ég óska ykkur alls hins besta á þessum aðalfundi. Megi hann senda þau skilaboð að við höfum enn bjargfasta sannfæringu fyrir gildum smábátaútgerðarinnar.
Ég óska ykkur til hamingju með 25 ára afmæli Landssambands smábátaeigenda og segi 26. aðalfund Landssambands smábátaeigenda settan’.
Aðalfundur LS – Arthur Bogason endurkjörinn formaður