Samstaðan er og verður sterkasta vopn trillukarla


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í
DV í dag, 19. nóvember:


„Síðastliðinn mánudag 15. nóvember ritar
blaðamaður ársins 2009, Jóhann Hauksson á DV, frétt undir fyrirsögninni:  „Dómsmál klýfur smábátamenn í
fylkingar“.   Málefnið er
opnað á forsíðu með eftirfarandi: 
„Klofningur smábátamanna – nýtt félag í fæðingu“


Við lestur fréttarinnar varð undirritaður fyrir
miklum vonbrigðum, þar sem með einhliða fréttaflutningi er Landssamband
smábátaeigenda og forysta þess að ósekju gerð tortryggileg.  Að mínu mati tel ég blaðamanninn ekki
gæta hlutleysis við skrif fréttarinnar, sem ég átti síst von á úr hans
ranni. 

Í fréttinni er fjallað um dóm Hæstaréttar sem
vissulega getur leitt til óvissu um framtíð LS.   Næsti málsliður er eftirfarandi:  „Samkvæmt heimildum DV hafa
forsvarsmenn félagsins leitað eftir stuðningi meðal þingmanna við að tryggja
hag félagsins, jafnvel með lögum.“


Ef einhverjir lesenda DV hafa skilið þetta svo
að forsvarsmenn LS hafi ákveðið að fá stuðning þingmanna fyrir lagasetningu í
kjölfar dómsins er slíkt ekki rétt.

Í tíð Einars K. Guðfinnssonar sem
sjávarútvegsráðherra var hafin vinna í Sjávarútvegsráðuneytinu við að breyta
lögum um greiðslumiðlun.  Hvati
þess var skýrsla starfshóps sem forsætisráðherra skipaði í kjölfar frumkvæðisathugana
Umboðsmanns Alþingis, er varðar lögbundna gjaldtöku í þágu hagsmunasamtaka og
félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.  

Enn er unnið að þessu málefni og hefur dómur
Hæstaréttar nú gefið betri leiðbeiningar um ferlið. 


Það sem mér þykir ennfremur umhugsunarvert í
frétt DV er að blaðamaður lætur hjá líðast að leita til mín við skrif
fréttarinnar.  T.d. hefði hann
getað fengið afrit af tölvupósti frá mér til eins félagsmanns, sem hann segir
hafa verið sendan til nokkurra útgerðarmanna.  Staðreyndin er að aðeins einn félagsmaður óskaði upplýsinga
og það er ekki sá sem vitnað er til í frétt DV.

Ekki ætla ég að setja á prent hugleiðingar um
hvaða hvatir liggja á bakvið umrædda frétt.   Það skal hins vegar meitlað í stein að með þeirri
samstöðu sem trillukarlar hafa sýnt sl. aldarfjórðung hafa þeir byggt upp
gríðarlega öflug félagasamtök, Landssamband smábátaeigenda, sem hefur reynst
þeim farsæll félagsskapur. 
Landssambandið hefur með starfi sínu náð að vinna úr vandasömum málum
sem sum hver skarast milli einstakra félagsmanna.  Þar hefur félaginu lánast að hafa hagsmuni heildarinnar að
leiðarljósi.   Þar með talið
að fagna hugmyndum um strandveiðikerfið og hvetja til þess að því verði komið á
og hnýta svo fyrir með áskorunum um lögfestingu þess.  Það er bundið í lög að strandveiðar hefjast árlega 1. maí og
lýkur 31. ágúst.


Ég hvet trillukarla til að standa vörð um félag
sitt, Landssamband smábátaeigenda, hér eftir sem endra nær.  Samstaðan er beittasta vopnið.

 

 

Örn
Pálsson framkvæmdastjóri

Landssambands
smábátaeigenda“