Félagsmenn í Sæljóni á Akranesi komu saman til aðalfundar 26. september sl. Góð mæting var á fundinn og umræður málefnalegar. Grásleppuveiðar, lánamál, dragnótaveiðar í Faxaflóa, strandveiðar, greiðslumiðlu, voru meðal þess sem rætt var um.
Sæljón samþykkti eftirfarandi sem áherslupunkta félagsins inn á aðalfund LS:
- Að slægingarstuðull verði óbreyttur
- Greiðslumiðlun fyrir smábáta verði með óbreyttu fyrirkomulagi. Í greinargerð segir að kerfið hafi reynst vel m.a. tryggt að allir bátar eru tryggðir á hagkvæman hátt. Tillögur um breytingar á núverandi fyrirkomulagi virðist byggjast á annarlegum hvötum.
- Sæljón leggur áherslu á að ekkert verði gefið eftir í sambandi við lánamál smábátaeigenda.
- Aflaregla í þorski verði gerð sveigjanlegir. Viðmiðunartölur þar eru of lágar, ætti að gefa veiði nú upp á 200.000 tonn. Einnig er niðurskurður í ýsu, steinbít og ufsa of mikill og illa rökstuddur. Tillögur Hafró eru ekki í takt við þær upplýsingar sem þeir gefa frá sér og aflareglan er fyrirbæri sem ekki hefur verið rökstutt nógu vel.
- Mótmælt er banni við lúðuveiðum. Þar er byrjað á öfugum enda. Hvers vegan er Hafró að loka veiðisvæðum vegna smáfisks?
Bann við lúðuveiðum með haukalóð er hugdetta sem er algjörlega á skjön við hugmynd um að ungviði þurfi að vernda ef byggja þarf upp veiðistofn. Ekki er vikið að þeirri smálúðu sem dragnótin hefur verið að landa þar sem meðalvigtin er ótrúlega lág.
- Að veiðidagar á grásleppu verði 50.
- Breyta þar reglum um byggðakvóta þannig að allir sitji við sama borð og (sjó). Bátar frá Akranesi eigi sömu möguleika og aðrir.
- Að handfæraívilnun verði tekin upp.
- Að staðinn sé vörður um strandveiðikerfið og full sátt verði um það.
- Að dragnótaveiðar í Faxaflóa verði aflagðar. Veiðarnar hafa alltaf verið Akurnesingum þyrnir í auga. Reynsla okkar er slæm. Hægt er að sjá áhrif t.d. með athugun á aflaskrá fiskifélagsins „Ægi. Veiði hefur nú dregist stórlega saman – sandkoli, rauðspretta og lúða nær horfin úr flóanum. Hver er ástæðan?
Formaður Sæljóns er Guðmundur Elíasson