Í lok aðalfundar LS seinnipart föstudagsins 14. október var lesin upp og samþykkt með lófataki eftirfarandi texti sem aðalályktun fundarins:
„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda (LS) haldinn 13. og 14. október 2011 í Turninum í Kópavogi ályktar eftirfarandi:
Aðalfundurinn fagnar þeim yfirlýsingum úr röðum ríkisstjórnarinnar að stefnt skuli sem fyrst að sátt um málefni sjávarútvegsins sem byggð skuli á niðurstöðum „sáttanefndarinnar. LS tók þátt í vinnu nefndarinnar af fullum heilindum og telur enn að það skársta sem fram hefur komið og leitt geti til niðurstöðu, sé lokaskýrsla nefndarinnar.
Óvissan um framtíðarskipan málefna sjávarútvegsins hefur nú legið sem mara á smábátaeigendum í hart nær þrjú ár. Þetta er algerlega óboðlegt atvinnuvegi sem er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins í gjaldeyrisöflun. Íslenska hagkerfið hrundi og bankarnir sömuleiðis. Oft á tíðum er engu líkara en löngun standi til þess að draga sjávarútveginn með sér í fallinu. Í þessu sambandi bendir aðalfundurinn á að lánastofnanir hafa nánast undantekningalaust verið dæmdar í gegnum réttarkerfið til leiðréttingar lána.
Aðalfundur lýsir miklum áhyggjum af þeirri staðreynd að gjáin breikkar sífellt á milli veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og þess raunveruleika sem veiðimenn upplifa á miðunum. Ráðgjöfin er orðin fullkomlega á skjön við aflasamsetninguna, sérstaklega á grunnmiðunum. Svo dæmi sé tekið voru aflaheimildir í ýsu skornar niður um 17% milli ára og samtals um 54% á sl. þremur árum. Á sama tíma verða smábátaeigendur á stórum svæðum við landið varir við aukna ýsugengd.
Ástæðan fyrir þessu er augljós. Aðferðafræði Hafró varðandi stofnstærðarmælingar byggist alfarið á trollveiðum sem gefa enga raunhæfa mynd af samsetningu eða magni fisks á grunnslóð.
Þessi augljósa staðreynd hefur blasað við til fjölda ára, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum leiða stjórnvöld þetta hjá sér. Veiðimenn, ekki einungis á smábátum, hafa gagnrýnt þetta harðlega, en reynsla þeirra og þekking er algerlega virt að vettugi af Hafrannsóknastofnuninni og stjórnvöldum. Sjónarmið veiðimanna eru jafnvel lítilsvirt og þeir ásakaðir um skammtíma sjónarmið og græðgi.
Enn skal leitt undanhaldið. Rótföst aflaregla hefur verið sett í þorski, sem þegar hefur kostað þjóðarbúið tugi milljarða í tapaðar tekjur og nú skal sambærileg aflaregla sett í fleiri tegundum.
Aðalfundur mótmælir þessu harðlega. Fyrir það fyrsta er þekking svo takmörkuð á lífríki sjávar og flóknu samspili tegunda og síbreytilegum umhverfisskilyrðum að langt er í land með að grundvöllur geti skapast fyrir aflareglu, hvort heldur í þorski eða öðrum tegundum.
Fundurinn bendir og á að aflaregla er síður en svo nauðsynleg markaðsstarfi fyrir íslenskar sjávarafurðir, né hryggstykkið í íslenska merkinu um ábyrgar fiskveiðar.
Þetta sést t.d. á því að þegar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra jók aflaheimildir í þorski um 30 þúsund tonn og núverandi sjávarútvegsráðherra jók stórlega við skötuselsheimildir, reyndust allar hrakspár um sölumál haldlausar.
Þá verður ekki annað séð en að Íslendingum gangi ágætlega að gera sífellt meira verðmæti úr makríl sem veiddur er í algerri óþökk Evrópusambandsins.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að brjóta nú þegar upp þá einokun sem Hafró hefur á hafrannsóknum við Ísland. Fundurinn skorar jafnframt á stjórnvöld að eyða sem fyrst þeirri óvissu sem ríkir um framtíðarskipan sjávarútvegsins.
Starfsumhverfi smábátaútgerðarinnar er um þessar mundir örðugra en verið hefur um langa tíð. Öflug smábátaútgerð er heilbrigðu atvinnu- og mannlífi með ströndum fram alger lífsnauðsyn. Hvað sem öllu líður með tækniframfarir og ásókn ungs fólks í borgir og þægileg innistörf er það trú fundarmanna að dýrmæti byggðar í öllu landinu mun verða mönnum æ ljósara í náinni framtíð.
Á tímum vakningar mannkyns um nauðsyn þess að ganga af ábyrgð um umhverfi sitt, hvort heldur á þurrlendi eða í hafi, mun sömuleiðis mikilvægi smábátaútgerðar sem notar umhverfisvæn veiðarfæri og minni orkunotkun til veiðanna aukast í hlutfalli.
Á þessu ber íslenskum stjórnvöldum skylda að taka fullt mark á.