Krókaaflamarksbátar fá ýsu

Á skiptimarkaði Fiskistofu í október voru 1.465 tonn í boði í skiptum fyrir þorsk.   Mest var af ýsu 476 tonn, 255 tonn af loðnu, 209 tonn af gullkarfa, 100 tonn af grálúðu, en alls voru 16 tegundir í boði.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að hæstu boðin í ýsu komu frá krókaaflamarksbátum og fór því öll ýsan sem í boði var til þeirra. Ígildisstuðull á skiptimarkaðinum reyndist 0,78 en er 0,89 í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni.  Alls skiluðu bátarnir því 373 tonnum af þorski á móti þeim 476 tonnum af ýsunni sem þeir fengu í staðinn.  Þorsktonnin hefðu hins vegar orðið 50 fleiri fyrir sama magn af ýsu hefði stuðullinn verið 0,89.