Vinnuskjalið gæti orðið umræðugrundvöllur

Í dag 1. desember birtist í Fiskifréttum grein eftir framkvæmdastjóra LS, Örn Pálsson.  Greinin ber yfirskriftina „Vinnuskjalið gæti orðið umræðugrundvöllur og fjallar um nýjasta útspilið í sjávarútvegsmálunum. 


Vinnuskjal sem ber nafnið „Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða hefur verið birt á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þess er getið að hagsmunaaðilum og öllum almenningi gefist kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir. Hér er um nýmæli að ræða en í raun nokkuð rökrétt framhald á því sem undan er gengið.  
Endurskoðunarnefndin
Hinn 7. september 2010 skilaði Guðbjartur Hannesson formaður starfshóps um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun skýrslu hópsins. Skýrslan var árangur eins árs starfs fulltrúa þingflokka og hagsmunaaðila. Þó ekki væri full eining með skýrsluna og aðilar skiluðu inn bókunum var hún niðurstaða gríðarlegrar vinnu og samráðs. Gera mátti ráð fyrir að í kjölfarið yrði lagt fram frumvarp sem byggði á henni. Leið nú og beið, algjör leynd yfir framhaldinu.  Það var ekki fyrr en á vordögum þessa árs að frumvarp var kynnt og það ekki eitt heldur tvö. Minna frumvarpið, sem Alþingi afgreiddi sem lög með nokkrum breytingum og stærra frumvarpið sem dagaði uppi í þinginu á septemberdögum þess. Ástæðan var ósætti allra aðila. Orsakirnar var víða að finna, ein þeirra var að frumvarpið byggði ekki nema að litlu leyti á niðurstöðum endurskoðunarnefndarinnar.
Leynd yfir frumvarpssmíði
Margir lýstu nú áhuga sínum á að leggja ráðherra sjávarútvegsmála lið við að bera klæði á vopnin og semja nýtt frumvarp svo hægt yrði að eyða þeirri óvissu sem komin var. Aftur tók við leyndardómsfullur kafli um hverjir væru að vinna að frumvarpi. Greint var frá því að verið væri að skoða umsagnir sem borist hefðu við „stóra frumvarpið. Bollaleggingar voru um hvort nýtt frumvarp byggt á því eldra kæmi fram eða alveg nýtt frumvarp.
Sl. laugardag var hulunni létt í formi vinnuskjals sem sett var á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Eftir því sem ég kemst næst er hér ekki um frumvarpsdrög ráðherra að ræða, heldur vinnuskjal starfshóps sem ráðherra setti á laggirnar til að yfirfara umsagnir og setja saman frumvarp.  Áður en vinnuskjalið verður að frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er hagsmunaaðilum og öllum almenningi gefinn kostur á að gefa sitt álit.
Hvert er hlutverk ráðherrans?
Hér er um nýmæli að ræða og verður til þess að málið tefst enn frekar.  Meginreglan hefur verið sú að ráðherrar kynna frumvörp sín í ríkisstjórn og þar er tekin sameiginleg ákvörðun um framhaldið. Svo virðist sem ráðherra hafi ekki fengið innihald vinnuskjalsins samþykkt í ríkisstjórn og það sé skýringin á því að ekki kemur fram frumvarp. Ég læt öðrum um að dæma um það hverjar orsakirnar séu. Einnig á ég erfitt að fá botn í að málið hafi verið tekið úr höndum Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sett til annarra ráðherra. Ef svo er: Hvert er þá hlutverk ráðherrans? Fer hann ekki lengur með málefni sjávarútvegsins?   
Við sem störfum í sjávarútveginum getum lítið annað en trúað því og treyst að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé æðsti maður sjávarútvegsmála þar sem ríkisstjórnin hefur falið honum að sjá um málaflokkinn.
Ásættanlegri niðurstaða
Vinnuskjalið „Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða lít ég á sem tilraun til að skapa umræðugrundvöll í þá átt að ná samkomulagi um sjávarútvegsmálin. Það er brýnt að eyða óvissunni um þau og rétt að nota þennan vettvang sem nú er boðið upp á.  

Við samanburð á fyrra frumvarpi sýnist mér samningaleiðin nú vera mun ásættanlegri, nánast tryggður 35 ára samningur og hætt við bann við veðsetningu samningsins sem ég tel vera mjög stórt atriði.  Ákvæðið styður einnig samþykkt aðalfundar LS um að nýtt frumvarp byggi á samningaleiðinni.  
Þá er búið að færa skerðingarákvæði aflahlutdeildar til hærri viðmiðunar, skerðing nú byrjar í 202 þús. tonnum í þorski í stað 160 þús.
Ekki er lagt til að veiðigjald hækki, en hluti þess ætti að skila sér til sjávarútvegsins.
Óásættanleg ákvæði
Í vinnuskjalinu er einnig að finna atriði sem eru óásættanleg.  Þar nefni ég hömlur á kvótaframsal, að heimilt verði að flytja veiðiheimildir úr krókakerfi til aflamarks, að línuívilnun nái ekki til allra dagróðrabáta og að byggðakvóti verði áfram í formi úthlutunar í stað veiðiívilnunar til dagróðrabáta.

Þegar þetta er ritað sýnist mér málið hins vegar í fullkominni óvissu. Ráðherra sem fer með sjávarútvegsmálin virðist ekki mega sýna spilin, hvaða hugmyndir sé verið að vinna með. Það þykir mér miður.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.