Milljarðar í húfi – ýsuráðgjöfin yfirfarin

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur óskað eftir því við Hafrannsóknastofnunina að hún fari yfir ráðgjöf sína í ýsu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.
LS hefur allt frá því ákvörðun var tekin um heildarafla á ýsu í ágúst sl. gagnrýnt hana.  Þar hefur m.a. verið byggt á upplýsingum um aflabrögð, skyndilokanir og samtölum við sjómenn sem hafa áratugareynslu í ýsuveiðum.
Þegar aflatölur á fyrsta ársfjórðungi fiskveiðiársins lágu fyrir um miðjan desember var ljóst að rök LS stóðust. Aflabrögð höfðu verið heldur betri en á sama tíma í fyrra, öndvert við þær niðurstöður sem fengust úr togararalli stofnunarinnar í mars sl.
LS benti SLR á að svo virtist sem aflabrögð nú væru í samræmi við mælingar Hafró í fyrrahaust sem sýndi 20% stærri stofn en mælst hefði í vorralli stofnunarinnar.   Ástæða væri því að skoða forsendur ráðgjafarinnar betur með tilliti til að stofnunin hefði verið of varkár í ráðgjöf sinni.
SLR leggur áherslu á að skoðun Hafró verði lokið fyrir 20. janúar nk.
Rétt er að taka fram að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða, bæði hvað varðar hagkvæmni veiða, stöðu markaða og aukningu á aflaverðmæti sem gæti numið milljörðum.  
 
og frétt í Morgunblaðinu í dag. View image