Ýsa – gengur hratt á heimildir og meiri veiði

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um svar Hafrannsóknastofnunar við fyrirspurn sjávarútvegsráðherra um endurskoðun á ráðgjöf fyrir ýsu á fiskveiðiárinu.  Sjómenn hafa haft samband við LS og tekið undir þau sjónarmið að forsendur ráðgjafarinnar séu ekki að ganga eftir.  Mikið sé af ýsu á slóðinni og hún vel haldin.

Í síðustu ástandsskýrslu Hafró sem út kom í júní sl. segir m.a. um ýsuaflann:
„Á fyrstu sjö mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs (2010/2011 innsk. LS) var landaður afli 22% minni en á sama tímabili á síðasta fiskveiðiári, eða 33 þús. tonn.  

LS hefur tekið saman tölur um ýsuafla á yfirstandandi fiskveiðiári til og með 22. janúar sl. og borið saman við sama tímabil á síðasta fiskveiðiári.  Í ljós kemur að samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu er ýsuafli nú 21.383 tonn á móti 20.820 tonnum í fyrra.  Þó hér sé ekki um mikinn mun að ræða, hlýtur það að vekja upp spurningar hversu mikið hefur veiðst af ýsu í ljósi þess að heimildirnar nú eru rúmum 14% minni en í fyrra sem svarar til 7.646 tonna.  Þegar horft er til þessara talna gengur því hratt á veiðiheimildir í ýsu, búið að veiða 47% nú á móti 39% í fyrra.  

Eins og sjá má á þessum tölum hefur þróunin snúist við miðað við samanburð fiskveiðiáranna 2009/2010 og 2010/2011 og vitnað var til hér að framan.  Ekki er því annað að sjá en ýsan sé farin að gefa sig betur en í fyrra og vonandi að áframhald verði á því næstu árin.