Úttektarnefnd Landssamtaka lífeyrissjóða hefur skilað af sér viðamikilli skýrslu. Skýrslan er í fjórum bindum, auk kynningarefnis og samantektar.
Nefndin var skipuð af ríkissáttasemjara eftir að ósk þess efnis kom frá LL um þriggja manna nefnd „óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga til að fjalla um fjárfestingarstefnu, ákvarðanir og lagaumhverfi sjóðanna fyrir hrunið.
Í nefndinni voru: Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómara, sem var formaður nefndarinnar, Guðmundur Heiðar Frímannsson siðfræðingur og prófessor við Háskólann Akureyri og Héðinn Eyjólfsson viðskiptafræðingur.
Undanfarin ár hefur Landssamband smábátaeigenda fjallað mikið um Gildi lífeyrissjóð. Lagðar hafa verið fram tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins og spurningar settar fram á ársfundum sjóðsins sem ætlað hefur verið að skýra frekar það sem fram hefur komið ársskýrslum.
Fulltrúar eigenda í stjórn
Í skýrslu þremmenningana er tekið undir ýmislegt sem LS hefur vakið athygli á. Dæmi þar um er aukið lýðræði við kjör stjórnar og réttindi á ársfundum.
Í úttektarskýrslunni segir:
„Nefndin telur eðlilegt að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna eigi fulltrúa í stjórn. Úttektarnefndin leggur til að allir lífeyrissjóðir móti sér þá stefnu að einn eða fleiri stjórnarmenn séu kosnir beinni kosningu á ársfundum sjóðanna.
Skemmst er frá því að segja að fyrir síðasta ársfund lagði LS til hliðstæða tillögu sem gekk út á að auka vald sjóðfélaga í stjórn sjóðsins og gefa sjóðfélögum kost á að bjóða sig fram á ársfundi til setu í stjórn.
Gott er að rifja hér upp hvernig stjórn Gildis afgreiddi tillöguna. Skömmu fyrir ársfundinn fékk framkvæmdastjóri LS Örn Pálsson, bréf frá Gildi þar sem m.a. sagði að ekki væri öruggt að tillögurnar kæmu allar til umræðu á ársfundinum og þar með afgreiðslu á þeim vettvangi. Í bréfinu var vitnað til greinar 23.2. í samþykktum sjóðsins og bent á að:
„tillögur um breytingu á ákvæðum sem teljast efni kjarasamninga s.s. um iðgjöld og stjórnskipan sjóðsins, þ.á.m. um hlutverk og skipan fulltrúaráðs og stjórnar verði einungis teknar fyrir á ársfundi að fyrir liggi samþykki 2/3 hluta samtaka atvinnurekenda og launþega sem að sjóðnum standa. Um vægi atkvæða einstakra aðildarfélaga sjóðsins fer því eftir ákvæðum gr. 5.3. og þarf þá bæði samþykki tilskilins meirihluta samtaka stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda sem að sjóðnum standa.
Á fundi með framkvæmdastjóra Gildis skömmu síðar fékk LS það staðfest að þetta væri ákvörðun stjónarinnar og þá þegar hefðu tvö aðildarfélög lýst afstöðu sinni (Samtök atvinnurekenda og Sjómannasamband Íslands). Þau hefðu verið andvíg því að tillögur sem fjalla m.a. um breytingar á stjórn sjóðsins yrðu teknar fyrir á ársfundi. Svo fór að æðsta vald í stjórn sjóðsins, ársfundi, var meinað að fjalla um tillögur sem lutu að breytingum á stjórn sjóðsins.
Fyrst í stað komu þessi viðbrögð framkvæmdastjóra LS á óvart þar sem hann taldi þetta kjörið tækifæri fyrir sjóðinn til að bæta ímynd sína með því að opna hann fyrir hinum almenna sjóðfélaga og auka þannig lýðræði innan hans. Eftir á að hyggja kom afstaðan hins vegar ekki á óvart þar sem sótt var að gríðarlegu valdi sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa ákveðið að skipta á milli sín og verður að öllum líkindum varið til síðasta manns.
Skilaboðin voru skýr: Nánast óhugsandi væri að ná fram breytingum á ársfundi, samþykktir sjóðsins gáfu stjórn færi á að stöðva tillögur sem beint var til ársfundar og komið í veg fyrir að hann væri æðsta vald eins og lýðræðið kennir.
Skýrsla úttektarnefndarinnar sýnir að LS er ekki eitt á báti með skoðanir sýnar varðandi aukið lýðræði innan sjóðsins, hún leggur mikilvægt lóð á vogarskálina í að ná fram löngu tímabærum breytingum á samþykktum sjóðsins.