Snæfell ómyrkt í máli

Snæfell, félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi hélt félagsfund í Grundarfirði í gærkveldi, 16. febrúar.  Fundurinn var vel sóttur og fjörlegar umræður um þau mál sem brenna um þessar mundir á smábátaeigendum.  

Kjaraviðræður, strandveiðar, grásleppuveiðar og ýmislegt fleira var rætt í þaula og m.a. samþykkti fundurinn að beina því til Siglingamálastofnunar að kanna gildi flotbúninga um borð í smábátum, t.d. hversu hátt hlutfall smábátaflotans hefur slíka búninga um borð.  Gestir fundarins voru formaður og framkvæmdastjóri LS.

Undir lokin var eftirfarandi ályktun samþykkt með lófataki:

„Félagsfundur Snæfells, félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi, haldinn í Grundarfirði 16. febrúar 2012 samþykkir eftirfarandi áskorun til stjórnvalda:

Í júní 2011 kynnti Hafrannsóknastofnunin tillögur sínar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.  Þrátt fyrir að veiðimenn víðast hvar af landinu hafi sjaldan ef nokkru sinni verið sannfærðir um að þorkgengd sé með mesta móti, örlar harla lítið á viðurkenningu á þessari skoðun veiðimanna í skýrslunni framangreindu.

Það er eindregin skoðun fundarmanna að ef þorskveiðiheimildir verða ekki auknar hið snarasta mun þjóðarbúið verða af gríðarlegum verðmætum sem munu ekki „geymast í sjónum heldur glatast með öllu.
Fundurinn skorar og á stjórnvöld að láta nú þegar endurskoða vinnulag og verkreglur Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi ráðgjöf hennar um nýtingu ýsustofnsins.  Í skýrslunni er stofnunin með orðagjálfri að lauma inn bakdyramegin aflareglu í ýsu, aðferð sem fundurinn mótmælir alfarið.  Þetta er enn undarlegra í ljósi þess að mikil óvissa er um grundvallarþætti í stofnstærðarmatinu og tíundað um það í skýrslunni.
Smábátaeigendur, á stórum svæðum við strendur landsins, hafa orðið varir við mikla ýsugegnd og það jafnvel á svæðum sem sjaldan eða aldrei hefur áður sést ýsusporður á.  Málum er nú svo fyrir komið að veiðimenn á grunnslóð eru í stökustu vandræðum vegna mikils ýsuafla. 
Það er mál þeirra að í fyrsta lagi hafi ýsan sigið upp að landinu og því gefi togararallið kolranga mynd af ástandi stofnsins og í öðru lagi að ástand einstakra staðbundinna ýsustofna í fjörðum og flóum er ekkert metið.
Eins og með þorskinn er sama staðan uppi:  sú mikla ýsugengd sem nú er á grunnslóð varir ekki um aldur og ævi.  Tjón sjávarútvegsins og þar með þjóðarbúsins af vannýttum möguleikum til tekjuauka hleypur á tugum milljarða.
Framundan er sá árstími í hámarki sem vertíð kallast.  Í gegnum Íslandssöguna hafa landsmenn þá tekið rösklega til hendinni til að færa björg í bú og þiggja gjafir náttúrunnar.  Fundurinn skorar því á sjávarútvegsráðherra að bregðast nú snöfurmannlega við og bjarga hið snarasta því sem bjargað verður með því að stórauka veiðiheimildir í þorski og ýsu.